Handbolti

Ótrúlegur endir þegar Frakkar unnu Þjóðverja | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allison Pineau skoraði tvö síðustu mörk Frakka og tryggði þeim bæði stigin gegn Þjóðverjum.
Allison Pineau skoraði tvö síðustu mörk Frakka og tryggði þeim bæði stigin gegn Þjóðverjum. vísir/getty
Keppni í milliriðlum á EM 2016 í handbolta hófst í dag með þremur leikjum. Leikið var í milliriðli 1 sem fer fram í Gautaborg.

Frakkland, Holland og Þýskaland eru öll með fjögur stig í riðlinum eftir sigra í leikjum dagsins.

Frakkar unnu ævintýralegan sigur á Spánverjum, 22-23. Allison Pineau var hetja Frakka en hún tryggði liðinu sigur með tveimur mörkum á síðustu 18 sekúndum leiksins.

Pineau jafnaði metin í 22-22 með marki úr vítakasti þegar 18 sekúndur voru eftir. Spánverjar, sem voru einum færri, tóku leikhlé og settu sjötta sóknarmanninn inn á.

Það gekk ekki betur en svo að Macarena Aguilar tapaði boltanum þegar þrjár sekúndur voru eftir. Pineau nýtti sér það, skoraði í autt markið og tryggði Frökkum bæði stigin.

Pineau var markahæst í franska liðinu með níu mörk en sjö þeirra komu af vítalínunni. Nerea Pena skoraði fimm mörk fyrir spænska liðið sem er án stiga á botni riðilsins.

Holland, silfurliðið frá síðasta HM, vann þriggja marka sigur, 30-33, á heimaliðinu, Svíþjóð.

Hollendingar leiddu allan tímann þótt munurinn á liðunum væri aldrei mikill.

Cornelia Groot var markahæst í hollenska liðinu með sjö mörk. Estevana Polman kom næst með sex mörk. Isebelle Gulldén var að venju markahæst í sænska liðinu með átta mörk. Svíar eru með fjögur stig í riðlinum.

Þýskaland átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Serbíu að velli. Lokatölur 19-26, Þjóðverjum í vil.

Liðsheildin var sterk hjá Þýskalandi en allir útileikmenn liðsins nema tveir komust á blað í leiknum. Anne Hubinger og Svenja Huber voru markahæstar með fjögur mörk hvor.

Tamara Georgijev skoraði sjö mörk fyrir Serba sem eru með þrjú stig í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×