Að minnsta kosti 1500 starfsmönnum hefur verið sagt upp í fataverksmiðjum í Bangladesh eftir að mótmæli þeirra höfðu orðið til þess að mörgum verksmiðjum var lokað í allt að viku. Guardian greinir frá.
Fataverksmiðjurnar sem um ræðir sjá um að framleiða föt fyrir stærstu fatamerki veraldar eins og Gap, Zara og H&M en þúsundir starfsmanna gengu út úr verksmiðjunum sem allar eru staðsettar í Ashulia hverfinu í Daka, höfuðborg Bangladesh.
Upprunalega mótmæltu starfsmenn því sem þóttu ólögmætar uppsagnir 121 starfsmanna slíkra verksmiðja en fljótt þróaðist tilgangur mótmælanna og starfsmennirnir fóru að krefjast þreföldun launa sinna en meðalmánaðarlaun starfsmanna í fataverksmiðjum Bangladesh eru um 7500 krónur.
Efnahagur landsins á allt sitt undir í útflutning á slíkum fötum og því brugðust yfirvöld ókvæða við mótmælum starfsmannanna en lögreglan taldi þau ólögleg. Í dag ákváðu eigendur verksmiðjanna að grípa til uppsagna til þess að geta hafið starfsemi á ný.
Á ekki efni á mat á laununum
Shawkat Ali var einn þeirra starfsmanna sem rekinn var. Hann hafði tekið þátt í mótmælunum og krafist hærra launa vegna þess að hann eyðir að hans sögn svo stórum hluta launa sinna í leigu í hverjum mánuði.
„Ég get ekki keypt mat fyrir launin“ sagði Ali en rúmlega 250 manns höfðu verið reknir í verksmiðjunni sem hann hafði starfað í.
Í Bangladesh starfa rúmlega 4500 slíkra fataverksmiðja sem þekktar eru fyrir láglaunastefnu sina og bágar aðstæður starfsmanna.
Hundruð starfsmanna í fataverksmiðjum sagt upp eftir mótmæli
