Handbolti

Dúndurbyrjun Alexanders gaf tóninn í toppslagnum gegn Kiel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skoraði fimm mörk á fyrstu 20 mínútum leiksins.
Alexander skoraði fimm mörk á fyrstu 20 mínútum leiksins. vísir/afp
Rhein-Neckar Löwen tyllti sér á topp þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með sigri á Kiel, 26-29, í toppslag í Sparkassen-Arena í kvöld.

Löwen er nú með 32 stig, tveimur stigum á undan Flensburg og Kiel. Flensburg á leik síðar í kvöld gegn Coburg 2000 og fer aftur á toppinn með sigri.

Ljónin frá Mannheim voru skrefinu á undan í leiknum í kvöld en gekk illa að slíta sig frá strákunum hans Alfreðs Gíslasonar.

Alexander Petersson hóf leikinn af miklum krafti, skoraði þrjú af fyrstu fimm mörkum Löwen og var kominn með fimm mörk eftir 20 mínútur.

Löwen skoraði tvö mörk á síðustu 20 sekúndum fyrri hálfleiks og leiddi í hálfleik, 14-16.

Kiel var aldrei langt undan og línumaðurinn Patrick Wiencek jafnaði metin í 20-20 þegar 20 mínútur voru eftir. Þá steig Löwen á bensíngjöfina, skoraði átta mörk gegn þremur og náði fimm marka forskoti, 23-28.

Það bil náði Kiel ekki að brúa og Löwen fagnaði þriggja marka sigri, 26-29.

Alexander og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu báðir fimm mörk fyrir Löwen, líkt og Andy Schmid. Þá átti markvörðurinn Andreas Palicka góðan leik gegn sínum gömlu félögum og varði 16 skot (40%).

Wiencek og Domagoj Duvnjak skoruðu sjö mörk hvor fyrir Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×