Það er almennt viðurkennt í samfélaginu af læknum og vísindamönnum að hvítur sykur sé einn helsti orsakavaldur vaxandi offitu og áunninnar sykursýki á Vesturlöndum.
Gosdrykkjaneysla er mun meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum og hér er verðið langlægst. Laufey Steingrímsdóttir prófessor í næringarfræði kynnti í dag niðurstöður nýrrrar rannsóknar matvæla- og næringarfræðideildar og hagfræðideildar Háskóli Íslands á þróun sykurneyslu á Íslandi og mögulegum áhrifa- og skýringaþáttum.
í opinberri umræðu er því gjarnan haldið fram að sykurskattar virki ekki sem tæki til að hafa áhrif á eftirspurn eftir sykraðri vöru eins og gosdrykkjum þrátt fyrir mörg dæmi um hið gagnstæða frá útlöndum. Markmið sérstakra vörugjalda á sykur eða færsla sykraðrar matvöru í efra þrep virðisaukaskatts er að hækka verðið á þessum vörum til að draga úr neyslu þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna svart á hvítu að verð hefur greinileg áhrif á gosneyslu á Íslandi.
Laufey og samstarfsfólk hennar skoðaði samband verðs og eftirspurnar eftir gosdrykkjum frá 1997-2016.
„Niðurstöðurnar sýndu mjög skýrt að fyrir hvert prósentustig sem verðið hækkar þá minnkar eftirspurnin um eitt prósent þannig að það er skýrt og klárt samband þarna á milli,“ segir Laufey.

Katrín talaði fyrir daufum eyrum
Bæði Norðmenn og Finnar hafa sérstaka sykurskatta. Finnar drekka aðeins þriðjung af því gosi sem Íslendingar drekka. Þá taka sykurskattar gildi í Bretlandi í apríl á næsta ári.
Þingmenn Vinstri grænna gerðu tillögu um að setja sykraða matvöru í efra þrep virðisaukaskatts við afgreiðslu síðasta fjárlagafrumvarps en tillagan fékk ekki hljómgrunn hjá öðrum flokkum. Þegar Katrín Jakobsdóttir formaður VG mælti fyrir tillögunni, sem var minnihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar, sagði hún meðal annars eftirfarandi:
„Tæplega 60% 6 ára barna borða of mikinn sykur. Yfir helmingur af viðbætta sykrinum kemur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum, sælgæti og ís hjá 9 ára börnum og tæplega 70% hjá 15 ára börnum. Á heimasíðu landlæknisembættisins kemur einnig fram að í grein sem birtist árið 2011 í The Lancet, einu þekktasta tímariti heims um heilbrigðismál og lýðheilsu, var lagt mat á hvaða aðgerðir stjórnvalda í Ástralíu skiluðu mestum ávinningi og árangri í því að sporna gegn offitu þar í landi. Niðurstaða greiningarinnar var sú að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru væri áhrifaríkasta leiðin til að bæta heilsu og draga úr útgjöldum vegna hennar.“
Laufey Steingrímsdóttir prófessor segir að aðgerðir stjórnvalda sendi skilaboð út í þjóðfélagið og hafi eitt og sér áhrif á eftirspurnina. Hins vegar sé skýrt að skattar virki sem tæki til að draga úr neyslu gosdrykkja.
„Við getum gert ráð fyrir því að ef einhvers konar skattur eða gjald væri sett á sykraða gosdrykki þá myndi það skila sér í minni eftirspurn,“ segir Laufey.