Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, styður ekki ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að meina fólki frá sjö löndum inngöngu í Bandaríkin.
May hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki fordæmt ákvörðun Trump um leið, en þess í stað sagði hún að það væri yfirvalda í Bandaríkjunum að ákveða sína eigin stefnumörkun. Breska ríkisstjórnin mun standa við bakið á breskum ríkisborgurum sem kunna að verða fyrir áhrifum vegna bannsins.
Fyrirskipun Trump, sem hann undirritaði í gær, meinar ríkisborgurum Íraks, Írans, Libíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens inngöngu í Bandaríkin næstu þrjá mánuði, jafnvel þó þeir hafi svokallað græna kort, sem er ótímabundið dvalar- og landvistarleyfi. Um er að ræða eitt af helstu kosningaloforðum Trump, en hann lofaði að hann myndi banna múslímum að koma til Bandaríkjanna.
Ringulreið skapaðist á flugvöllum víðsvegar um Bandaríkin vegna ákvörðunarinnar þar sem fjölda fólks var meinuð innganga í landið. Alríkisdómari úrskurðaði í nótt að stjórnvöldum þar í landi væri óheimilt að flytja á brott aðila sem þegar eru komnir til Bandaríkjanna með gilda vegabréfsáritun.
Sjá einnig: Dómari greip inn í tilskipun Trump
May heimsótti Trump í Washington á föstudag, en þaðan fór hún í heimsókn til Tyrklands þaðan sem tilkynning barst frá henni að það væri Bandaríkjamanna að marka eigin stefnu í innflytjendamálum. Það vakti ekki mikla lukku í Bretlandi og var hún einungis nýlent í Bretlandi þegar tilkynning kom frá breska forsætisráðuneytinu, sem skerpti á gagnrýni á stefnu Trump.
Þar sagði meðal annars að yfirvöld í Bandaríkjunum færu með stefnumörkun í innflytjendamálum í Bandaríkjunum, rétt eins og innflytjendastefna Bretlands er í höndum bresku ríkisstjórnarinnar. „En við erum ekki sammála þessari aðferð og þetta er ekki aðferð sem við munum beita sjálf.“
Breskir þingmenn, hvort sem þeir eru í Verkamannaflokknum eða Íhaldsflokknum, hafa gagnrýnt May harðlega fyrir að fordæma ekki ákvörðun Trump strax. Staða breskra íþróttamanna hefur til að mynda þótt áhyggjuefni, en margir þeirra eru fæddir í þeim ríkjum sem nú eru komin á bannlista Trump. Þá er til að mynda einn þingmaður Íhaldsflokksins, Nadhim Zahawi, upprunalega frá Írak og getur því ekki ferðast til Bandaríkjanna á meðan fyrirskipun Trump er í gildi.
Þá hefur ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon sagt að forsætisráðherrann hefði átt að gagnrýna ákvörðunina um leið, en ekki klukkustundum síðar, undir pressu.
May er talin vilja halda Trump góðum, í von um að ná fram góðum viðskiptasamningi við Bandaríkin, fyrir hönd Bretlands.
