Fótbolti

Slysaleg spyrna Bacca reyndist sigurmarkið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bacca rennur í spyrnunni en slapp með skrekkinn.
Bacca rennur í spyrnunni en slapp með skrekkinn. Vísir/Getty
Carlos Bacca skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum í 1-0 sigri AC Milan á Sassuolo í dag en heimamenn höfðu stuttu áður misnotað vítaspyrnu.

Eftir tap Napoli gegn Atalanta á heimavelli í gær gátu leikmenn AC Milan saxað á liðin fyrir ofan sig í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu með sigri í dag en þrjú efstu lið deildarinnar að tímabilinu loknu frá þátttökurétt í þessari sterkustu deild Evrópu.

Domenico Berardi misnotaði vítaspyrnu í upphafi leiksins fyrir heimamenn en tíu mínútum síðar kom Bacca gestunum frá Mílanó yfir. Það reyndist vera eina mark leiksins og skilaði gestunum stigunum þremur.

Bacca hafði svo sannarlega heppnina með sér í vítaspyrnunni er hann rann þegar hann skaut að marki en boltinn rataði á markið og í netið.

Emil Hallfreðsson var ekki í leikmannahóp Udinese í 0-1 tapi gegn Lazio á Stadio Olimpico í höfuðborginni en þetta var þriðja tap Udinese í röð. Emil tók út leikbann vegna uppsafnaðra spjalda á tímabilinu.

Stórleikur umferðarinnar fer svo fram klukkan 19:45 í kvöld þegar Inter frá Mílanó tekur á móti Roma en gestirnir frá Róm mega ekki við því að tapa fleiri stigum í eltingarleiknum við Juventus á toppi deildarinnar.

Úrslit dagsins:

Palermo 1-1 Sampdoria

Chievo 2-0 Pescara

Crotone 1-2 Cagliari

Genoa 1-1 Bologna

Lazio 1-0 Udinese

Sassuolo 0-1 AC Milan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×