Skoðun

Er þetta í lagi?

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Forsætisráðherra ákvað að fela upplýsingar sem vörðuðu almannahag fram yfir kosningar og stjórnarmyndunarviðræður. Skýrslurnar tvær sem geymdar voru í skúffu í fjármálaráðuneytinu eru um tvö helstu deilumál síðasta kjörtímabils.

Í skýrslunni um skattsvik margra ríkra Íslendinga er að finna staðfestingu á því að þau voru ekki einskorðuð við eina lögfræðiskrifstofu og voru t.d. fjórum sinnum meiri en í Danmörku. Í fjölmiðlum og í fréttaskýringaþáttum hafa menn farið yfir söguna eftir að upplýsingarnar komu fram í dagsljósið og hvernig ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins drógu það að setja reglur til að torvelda flutning á peningum í skattaskjól, um nauðsyn þess að koma í veg fyrir skattsvikin og hverjir það eru helst sem stunda slík svik við samfélagið.

Athyglin hefði beinst að Panama-skjölunum

Umræður um þetta í aðdraganda kosninga hefðu augljóslega dregið athyglina enn frekar að Panama-skjölunum og ástæðuna fyrir því að kosið var fyrr en áætlað var.

Í skýrslunni um stóra loforðið sem varð til þess að ríkisstjórnin komst til valda eftir kosningar 2013 var í fyrsta sinn greint frá því hvernig „leiðréttingin“ svokallaða, 72,2 milljarðar kr. sem greiddir voru úr ríkissjóði, skiptist á milli eigna- og tekjuhópa á Íslandi. Helmingur þjóðarinnar sem átti mestar eignir fékk 72% alls þess fjár sem greitt var út og 10% tekjuhæstu Íslendinganna fengu um þriðjung, eða 22 milljarða kr. Skýrslan hefði augljóslega kallað fram miklar umræður í aðdraganda kosninga og dregið athyglina að framkvæmdinni, að óréttlæti hennar, þróun húsnæðisverðs og stöðu þeirra sem ekkert fengu, s.s. leigjenda og ungs fólks.

Og auðvitað hefði forsætisráðherra fundist það óþægilegt fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn ef athygli hefði beinst að þessum málum fyrir kosningar. Þess vegna er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort það hafi ekki einmitt verið ástæðan fyrir drættinum á birtingu skýrslnanna.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×