Fótbolti

Higuaín skoraði tvö á gamla heimavellinum og Juventus í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Higuaín er ekki sá vinsælasti í Napoli.
Higuaín er ekki sá vinsælasti í Napoli. vísir/getty
Juventus er komið í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar þrátt fyrir 3-2 tap fyrir Napoli á útivelli í kvöld. Juventus vann fyrri leikinn 3-1 og fór því áfram, 5-4 samanlagt.

Þetta var annar leikur liðanna á fjórum dögum en þau gerðu 1-1 jafntefli í ítölsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Gonzalo Higuaín spilaði á sínum gamla heimavelli í kvöld og skoraði bæði mörk Juventus. Argentínumaðurinn, sem er ekki sá vinsælasti hjá stuðningsmönnum Napoli, kom Juventus í 0-1 á 32. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Marek Hamsik jafnaði metin á 53. mínútu en sex mínútum síðar skoraði Higuaín öðru sinni.

Dries Mertens jafnaði metin á 61. mínútu og sex mínútum síðar kom Lorenzo Insigne Napoli yfir. Nær komust heimamenn hins vegar ekki og Juventus fagnaði því sæti í úrslitaleiknum þar sem liðið mætir Lazio.

Juventus hefur unnið tvöfalt á Ítalíu undanfarin tvö ár og á góða möguleika á að endurtaka þann leik en liðið er með sex stiga forskot á toppi ítölsku deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×