Handbolti

Guðjón Valur orðinn markahæstur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur er kominn með 158 mörk í þýsku deildinni.
Guðjón Valur er kominn með 158 mörk í þýsku deildinni. vísir/getty
Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson er orðinn markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Guðjón Valur skoraði sjö mörk í sigri Rhein-Neckar Löwen á Göppingen, 24-28, í kvöld. Hann er nú kominn með 158 mörk í þýsku deildinni, tveimur mörkum meira en Philipp Weber hjá Wetzlar.

Guðjón Valur var næstmarkahæstur hjá Löwen í leiknum í kvöld á eftir Andy Schmid sem skoraði átta mörk.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen sem er komið á topp deildarinnar. Flensburg, sem er í 2. sætinu, á þó leik til góða á Löwen.

Strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar í Kiel töpuðu óvænt fyrir Lemgo á útivelli, 34-30. Kiel er í 3. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Löwen.

Arnór Þór Gunnarsson átti frábæran leik og skoraði níu mörk þegar Bergischer lyfti sér upp úr fallsæti með sigri á Erlangen, 28-26. Þetta var þriðji sigur Bergischer í síðustu fimm leikjum. Björgvin Páll Gústavsson varði 10 skot í marki Bergischer.

Lærisveinar Rúnar Sigtryggssonar í Balingen-Weilstetten töpuðu hins vegar fyrir Minden, 25-22. Þetta var þriðja tap Balingen í röð en liðið er í sautjánda og næstneðsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×