Handbolti

Dagur við Gumma Gumm: „Maður losnar ekki við þig“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir
„Maður losnar ekki við þig. Til lukku, þetta verður stuð. Game on“

Svona hljómar kveðja Dags Sigurðssonar til Guðmundar Guðmundssonar á Facebook þar sem Dagur er að óska Guðmundi til hamingju með nýja starfið sem landsliðsþjálfari Barein.

Guðmundur hefur reyndar ekki verið formlega kynntur til sögunnar sem þjálfari Barein en hann er mættur þangað til að skrifa undir og er búið að boða til blaðamannafundar í næstu viku.

Dagur slær þarna á létta strengi þar sem ferðir þeirra tveggja hafa margsinnis legið saman. Dagur var til dæmis fyrirliði íslenska landsliðsins þegar Guðmundur stýrði því í fyrra skiptið á ferlinum.

Dramatískt jafntefli

Þegar Dagur fór svo út í þjálfun mættust þeir til dæmis í frægum leik Íslands og Austurríkis á EM 2010 þar sem lærisveinar Dags tryggðu sér jafntefli með því að skora þrjú mörk á síðustu mínútu leiksins.

Liðin voru svo saman í riðli í undankeppni EM 2012 þar sem Austurríki vann stórsigur á Íslandi á heimavelli en strákarnir okkar svöruðu með því að rassskella Austurríkismenn í Höllinni og tryggja sér sæti á EM í Serbíu.

Dagur tók svo síðar við liði Þýskalands og Guðmundur Guðmundsson gerðist þjálfari Danmerkur fyrir þremur árum. Þeir mættust þá fyrst á stórmóti á HM 2015 í riðlakeppninni þar sem liðin skildu jöfn, 30-30.

Á EM 2016 í Póllandi vann Þýskaland svo 25-23 sigur á Þýskalandi í lokaumferð milliriðlanna með þeim afleiðingum að Danir komust ekki í undanúrslitin. Þýskaland fór alla leið í úrslit og stóð uppi sem óvæntur Evrópumeistari.

Saman í Asíu

Dagur sagði upp störfum hjá Þjóðverjum eftir HM 2017 í Frakklandi og það sama gerði Guðmundur Guðmundsson hjá Dönum. Dagur tók að sér starf landsliðsþjálfara Japans og á að byggja þar upp lið fyrir Ólympíuleikana í Tókíó árið 2020.

Nú er Guðmundur að taka við Barein sem þýðir að þeir gætu mæst aftur í Asíukeppninni á næsta ári. Barein vann einmitt Japan í undanúrslitum Asíukeppninnar á síðasta ári en Japan hefur ekki komist í úrslitaleikinn síðan það vann mótið tvö fyrstu skiptin sem það var haldið árin 1977 og 1979.

Barein komst í úrslitaleikinn árið 2014 og 2016 en tapaði fyrir Katar í bæði skiptin. Guðmundi verður falið það verkefni að vinna Asíumótið á næsta ári.

Fyrir utan alla þessa landsliðssögu íslensku þjálfaranna mættust þeir líka nokkrum sinnum í þýsku 1. deildinni sem þjálfarar Füchse Berlín og Rhein-Neckar Löwen þannig það virðist rétt hjá Degi, hann bara losnar ekki við Guðmund úr sínu lífi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×