Handbolti

Rúnar fær lítið að spila í liði sem er búið tapa tíu í röð: "Mjög erfitt að kyngja því“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Kárason er ekki brosandi allan daginn hjá Hannover.
Rúnar Kárason er ekki brosandi allan daginn hjá Hannover. vísir/getty
Rúnar Kárason, hægri skytta íslenska landsliðsins í handbolta, hefur lítið fengið að spila fyrir lið sitt Hannover-Burgdorf í þýsku 1. deildinni í vetur.

Hann fær um fimm til tíu mínútur í leik en hefur samt sem áður skorað 44 mörk og gefið þrettán stoðsendingar fyrir Hannover-liðið í vetur.

Rúnar og félagar hans eru í frjálsu falli þessar vikurnar en liðið tapaði í gærkvöldi tíunda leiknum í röð þegar það heimsótti Bjarka Má Elísson og félaga í Füchse Berlín. Berlínarrefirnir unnu sannfærandi, 34-27. Rúnar komst ekki á blað í leiknum.

Rúnar fór ekki leynt með gremju sína eftir leikinn í gærkvöldi þegar hann skrifaði á Twitter: „Tíu tapleikir í röð, ég fæ svona 5-10 mínútur í leik, mjög erfitt að kyngja því rakkar.“

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður og handboltasérfræðingur, hvatti hann til dáða og sagði Rúnar koma sterkari til baka. Þeim skilaboðum svaraði Rúnar:

„[Þetta er] búið að vera svona í allan vetur, hef gengið þessa göngu áður, hefur ekki áhrif á mig í þetta skiptið, sjá janúar. Leiðinlegt engu að síður.“

Aðspurður af öðrum á Twitter hvort Jens Bürkle, þjálfari liðsins, væri svona erfiður sagði Rúnar: „Hann er bara undir pressu og höndlar það svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×