Körfubolti

Boston vann þriðja leikinn í röð og er einum sigri frá undanúrslitunum | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Isaiah Thomas skorar í nótt.
Isaiah Thomas skorar í nótt. vísir/getty
Boston Celtics er komið í 3-2 í rimmunni á móti Chicago Bulls í átta liða úrslitum austurdeildar NBA en Boston-liðið vann fimmta leikinn á heimavelli sínum í nótt, 108-97.

Boston vann austurdeildina en Chicago rétt slefaði inn í úrslitakeppnina með því að ná áttunda sætinu. Samt sem áður var búist við spennandi seríu.

Chicago virtist ætla að ganga frá Celtics þegar það komst í 2-0 með tveimur sigrum í Boston en allt snerist á hvolf í rimmunni þegar Rajon Rondo, leikstjórnandi Bulls, meiddist. Hann var ekki með í nótt en Chicago er búið að tapa þremur í röð síðan hann meiddist.

Isaiah Thomas, leikstjórnandi Boston, skoraði 24 stig í nótt og það sama gerði Avery Bradley og Al Horford skoraði 21 stig fyrir Celtics sem getur komist í undanúrslitin með sigri í Chicago í næsta leik.

Dwayne Wade var stigahæstur gestanna með 26 stig en Jimmy Butler var ansi rólegur og skoraði bara fjórtán stig.

Washington Wizards er svo komið í 3-2 á móti Atlanta Hawks en Washington vann, 103-99, á heimavelli í nótt. Atlanta þarf sigur í næsta leik til að kreista fram oddaleik.

Bradley Beal skoraði 27 stig fyrir heimamenn og John Wall 20 stig auk þess sem hann gaf fjórtán stoðsendingar en Dennis Schröder átti besta leik ferilsins í úrslitakeppni fyrir Atlanta og skoraði 29 stig og gaf ellefu stoðsendingar.

Sjötti leikur í rimmu Boston og Chicago verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á miðnætti á föstudagskvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×