Körfubolti

Bekkurinn hjá Houston í aðalhlutverki í sigri á Oklahoma

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þessi hefur oft átt betri daga en var samt í sigurliði.
Þessi hefur oft átt betri daga en var samt í sigurliði. Vísir/EPA
Houston Rockets eru einum leik frá því að senda Oklahoma City Thunder í sumarfrí eftir 113-109 sigur í Chesapeake Energy Arena-höllinni í Oklahoma en þrátt fyrir þrefalda tvennu Russell Westbrook var það Houston sem fagnaði sigri í kvöld.

Oklahoma leiddi leikinn lengst af og kom það sér vel að stórstjarna Houston Rockets, James Harden, náði sér engan veginn á strik framan af á meðan Westbrook var að sýna afhverju flestir telja að hann verði valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.

Var Westbrook kominn með þrefalda tvennu í hálfleik en Houston var ekki langt undan og var aðeins fjórum stigum undir í hálfleik 58-54. Oklahoma bætti við forskotið í þriðja leikhluta og náði um tíma fjórtán stiga forskoti en gestirnir frá Houston neituðu að gefast upp og fóru að saxa á forskotið.

Fór svo að Houston náði forskotinu um miðbik fjórða leikhluta en því forskoti héldu þeir allt til loka leiksins en Oklahoma átti engin svör við sóknarleik gestanna í lokaleikhlutanum sem taldi 40 stig.

Westbrook endaði með 35 stig, 14 fráköst og 14 stoðsendingar en Harden hafði hægt um sig með 16 fráköst, sjö fráköst og átta stoðsendingar.

Aftur á móti fékk Houston gríðarlega flott framlag af bekknum en Nene var með 28 stig og Lou Williams og Eric Gordon með 18 stig hvor, alls 64 stig á móti 22 stigum af bekknum hjá Oklahoma.

Oklahoma þarf því að vinna þrjá leiki í röð ætli liðið ekki að fara í sumarfrí en næsti leikur liðsins er í Houston.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×