Fundurinn var haldinn í Pennsylvaníu-ríki og sagði Trump við stuðningsmenn hans að hann væri að efna hvert loforðið á fætur öðru. Blés hann á alla gagnrýni og sagði hana vera „falskar fréttir“ frá „gamaldags“ blaðamönnum
Trump hafði tilkynnt að hann myndi ekki mæta á kvöldverð blaðamanna en hefð er fyrir því að forsetinn mæti þangað, þar sem yfirleitt er gert góðlátlegt grín að sitjandi forseta. Er Trump fyrsti forsetinn frá árinu 1981 til þess að sleppa því að sitja kvölverðinn en það ár var Ronald Reagan að jafna sig eftir banatilræði.
Á fundinum í gær sagði Trump að fjölmiðlar ættu skilið að fá „spikfeita falleinkunn“ vegna umfjöllunar þeirra um það sem Trump hefur áorkað á fyrstu 100 dögum hans sem forseti. Þá sagði Trump að hann væri hæstánægður með að vera meira en í 150 kílómetra fjarlægð frá Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.
Minntist Trump lauslega á kvöldverð blaðamanna þar sem hann sagði stóra hópa Hollywood-leikara og blaðamanna í Washington vera að hugga hvorn annnan á kvöldverðinum sem myndi verða „mjög leiðinlegur“.
Þá minntist hann stuttlega á umdeildan landamæramúr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó sem reynst hefur erfitt að fjármagna en múrinn var eitt helsta kosningaloforð Trump fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári.
„Við erum að fara að byggja múr, ekki einu sinni hafa áhyggjur af því,“ sagði Trump.