Körfubolti

Hiti í höfuðborginni þegar Washington minnkaði muninn | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dómararnir höfðu nóg að gera í leik Washington og Boston.
Dómararnir höfðu nóg að gera í leik Washington og Boston. vísir/getty
Þrír leikmenn voru reknir út úr húsi þegar Washington Wizards bar sigurorð af Boston Celtics, 116-89, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Staðan í einvíginu er 2-1, Boston í vil.

Það var mikill hiti í mönnum í höfuðborginni í nótt og alls voru átta tæknivillur dæmdar í leiknum. Þá voru Washington-mennirnir Kelly Oubre Jr. og Brandon Jennings og Terry Rozier hjá Boston reknir út úr húsi.

John Wall var atkvæðamestur í liði Washington með 24 stig og átta stoðsendingar. Hann var eini leikmaðurinn á vellinum sem skoraði yfir 20 stig í leiknum.

Al Horford var stigahæstur í liði Boston með 16 stig en skotnýting liðsins var aðeins 35,1%.

Golden State Warriors er komið í 2-0 gegn Utah Jazz í undanúrslitum Vesturdeildarinnar eftir 115-104 sigur á heimavelli sínum í nótt.

Kevin Durant skoraði 25 stig, tók 11 fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Golden State sem er enn ósigrað í úrslitakeppninni. Stephen Curry skoraði 23 stig og gaf sjö stoðsendingar og Draymond Green skoraði 21 stig, tók sjö fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum.

Gordon Hayward skoraði 33 stig fyrir Utah og Rudy Gobert var með 16 stig og 16 fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×