Fótbolti

Fékk gula spjaldið fyrir að mótmæla kynþáttaníði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Muntari fær gula spjaldið.
Muntari fær gula spjaldið. vísir/getty
Sulley Muntari, leikmaður Pescara, fékk gula spjaldið fyrir að mótmæla kynþáttaníði sem hann varð fyrir frá stuðningsmönnum Cagliari í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Muntari sagðist hafa bent dómara leiksins, Daniele Minelli, á kynþáttaníð sem hann varð fyrir og beðið um að leikurinn yrði stöðvaður.

Dómarinn, sem virtist ekki hafa heyrt níðsöngvana, spjaldaði hins vegar Muntari. Ganverjinn gekk þá af velli í mótmælaskyni. Á leið sinni af vellinum lenti hann í orðaskaki við stuðningsmenn Cagliari.

„Hvað átti ég að gera? Standa þarna og láta þetta yfir mig ganga? Það hefði gefið slæmt fordæmi. Við þurfum að stöðva þetta,“ sagði Muntari í viðtali eftir leik.

Zdenek Zeman, hinn gamalreyndi knattspyrnustjóri Pescara, var ekki jafn hrifinn af þessu uppátæki Muntaris.

„Muntari skildi okkur eftir einum færri. Hann ákvað að fara af velli þegar við gátum enn gert eitthvað í leiknum. Stuðningsmenn Cagliari beittu hann kynþáttaníði og hann bað dómarann um að gera eitthvað í málinu. Þess vegna gekk hann af velli,“ sagði Zeman.

Pescara tapaði leiknum með einu marki gegn engu.

vísir/getty
vísir/getty
vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×