Handbolti

Ólafur með þrettán prósent skotnýtingu í tapi Kristianstad

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fyrirliðinn Ólafur Guðmundsson átti ekki góðan leik í kvöld.
Fyrirliðinn Ólafur Guðmundsson átti ekki góðan leik í kvöld. vísir/getty
Svíþjóðarmeistarar Kristianstad töpuðu í kvöld öðrum leik liðsins á móti Ystads í einvígi liðanna í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta, 26-23. Staðan í rimmunni er nú 1-1 en Kristianstad, sem er langbesta liðið í deildinni, vann öruggan sigur á heimavelli sínum í fyrsta leik liðanna.

Kristianstad var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, en þegar staðan var 17-15 fyrir gestina í seinni hálfleik skoraði Ystads fimm mörk á móti einu og breytti stöðunni í 20-18. Eftir það litu heimamenn ekki um öxl og unnu sterkan sigur.

Línumaðurinn ungi, Arnar Freyr Arnarsson, var markahæstur Íslendinganna þriggja hjá Kristianstad en hann skoraði þrjú mörk í þremur skotum. Gunnar Steinn Jónsson reyndi eitt skot en skoraði ekki mark í leiknum.

Stórskyttan Ólafur Guðmundsson, sem skoraði eitt mark í síðasta leik, átti mjög erfitt uppdráttar í kvöld en hann skoraði aftur aðeins eitt mark. Að þessu sinni skaut hann átta sinnum á markið og skotnýtingin því aðeins þrettán prósent hjá Ólafi.

Íslendingarnir þrír skoruðu samtals sex mörk í fyrsta leiknum og fjögur í kvöld en þremenningarnir eru því búnir að skora tíu mörk í fyrstu tveimur leikjum liðanna í undanúrslitaeinvíginu.

Kristianstad og Ystads mætast þriðja sinni á heimavelli meistaranna á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×