Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði í viðtali við NBC fréttastöðina í gær að hann sé ekki til rannsóknar hjá Bandarísku alríkislögreglunni FBI en Trump rak forstjóra stofnunarinnar fyrr í vikunni.
Trump fullyrti einnig að þótt dómsmálaráðherrann Jeff Sessions og aðstoðardómsmálaráðherrann Rods Rosenstein hefðu lagt til að forstjórinn yrði rekinn, hefði Trump sjálfur verið búinn að ákveða það áður. Ráðleggingar ráðherranna hefðu ekki haft úrslitaáhrif.
Comey fór fyrir ítarlegri rannsókn á aðkomu Rússa að kosningabaráttunni í Bandaríkjunum í fyrra og er alríkislögreglan að reyna að komast að því hvort einhver úr starfsliði Trumps hafi unnið með Rússum. Slíkt væri alvarlegt lögbrot.
Trump þvertók einnig fyrir það í viðtalinu að hann sjálfur eða einhver úr starfsliði hans, hafi verið í sambandi við Rússa fyrir kosningarnar.
