„Comey tapaði trausti næstum allra í Washington. Jafnt Demókrata sem Repúblikana. Þegar fólk róast niður munu allir þakka mér,“ sagði forsetinn enn fremur.
Trump ákvað að reka Comey eftir að nýr aðstoðardómsmálaráðherra, Rod Rosenstein, mælti með því. Alríkislögreglan rannsakar um þessar mundir meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í fyrra sem og meint tengsl rússneskra stjórnvalda við framboð Trumps. Þess má geta að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra og yfirmaður Rosensteins, sætir einnig rannsókn, enda studdi hann Trump í kosningabaráttunni.

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeild þingsins, gagnrýndi Trump harðlega í gær fyrir brottreksturinn. „Snerist þetta í raun um eitthvað annað?“ spurði Schumer í gær. Sagði hann enn fremur að þörf væri á sérstökum, óháðum saksóknara til að rannsaka Rússlandsmálið.
New York Times greindi frá því í gær að stuttu fyrir brottreksturinn hefði Comey beðið um aukin úrræði til þess að rannsaka málið. Fór hann persónulega fram á það við Rosenstein.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, var einnig spurður um brottrekstur Comeys í gær. Blaðamaður CBS náði tali af Pútín, sem þá var klæddur í íshokkíbúning og á leiðinni inn á íshokkívöll. Sagði Putin að brottreksturinn hefði engin áhrif á samskipti ríkjanna og að spurningin væri fyndin. „Við tengjumst þessu ekki neitt,“ sagði Pútín.
Samkvæmt heimildum Reuters koma fjórir til greina sem eftirmaður Comeys. Andrew McCabe, starfandi yfirmaður FBI, Paul Abbate aðstoðaryfirmaður, Michael J. Anderson, rannsóknarlögreglustjóri í Chicago, og Adam Lee, rannsóknarlögreglustjóri í Richmond.