Erlent

Hafði nýverið beðið um menn og fjármagn vegna Rússarannsóknar

Samúel Karl Ólason skrifar
James Comey.
James Comey. Vísir/AFP
James BComey, fyrrverandi yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI), sem rekinn var í gær, hafði nýverið beðið Dómsmálaráðuneytið um aukið fjármagn og fleiri starfsmenn. Það gerði hann vegna rannsóknar á afskiptum yfirvalda Rússlands af forsetakosningunum í fyrra og meintum samskiptum starfsmanna framboðs Donald Trump, forseta, við Rússa.

Comey fór á fund Rod JRosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, en Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, hefur sagt sig frá öllu sem kemur að rannsókninni vegna samskipta hans við Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands, og að Sessions sagði þinginu ósatt um fundi þeirra.

Sá fundur fór fram í síðustu viku, en Rosenstein skrifaði svo minnisblað þar sem hann lagði til að Comey yrði rekinn. Jeff Sessions skrifaði einnig minnisblað þar sem hann tók undir tillögu Rosenstein og Donald Trump rak Comey í gær.

Comey sagði þingmönnum frá fundi hans við Rosenstein og samkvæmt heimildum New York Times kvartaði hann við þingmenn yfir því hve litlu hann hefði úr að brúka vegna Rússarannsóknarinnar.

Talskona Dómsmálaráðuneytisins sagði í dag að þessi fundur hefði aldrei átt sér stað og að Comey hefði aldrei beðið um meiri peninga og starfsfólk. Fjölmargir fjölmiðlar ytra hafa hins vegar haldið þessu fram í dag eftir samtöl við embættis- og þingmenn. Talið er að tímasetning beiðninnar og brottrekstursins verði olía á eld þeirra sem segja Trump hafa rekið Comey vegna rannsóknarinnar.

Trump var spurður að því í dag af hverju hann hefði rekið Comey og svar hans var einfaldlega: „Hann var ekki að standa sig vel.“


Tengdar fréttir

Comey hélt að brottreksturinn væri hrekkur

James Comey, sem rekinn var sem yfirmaður FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, í gær af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hélt í fyrstu að fregnir af brottrekstrinum væri hrekkur. Hann var staddur í Los Angeles þegar fregnirnar bárust honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×