Erlent

Rússar ætluðu að hafa áhrif á stefnu Trump í gegnum ráðgjafa hans

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump og Michael Flynn í lok árs 2016.
Donald Trump og Michael Flynn í lok árs 2016. Vísir/afp
Bandarískir njósnarar fengu síðasta sumar upplýsingar um að háttsettir rússneskir embættismenn og stjórnmálamenn ræddu hvernig þeir gætu haft áhrif á Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana, í gegnum ráðgjafa hans, þá Paul Manafort og Michael Flynn.

New York Times greinir frá þessu og hefur eftir nokkrum heimildarmönnum.

Manafort var á þessum tíma kosningastjóri Trump og Flynn ráðgjafi, en Flynn starfaði áður sem hershöfðingi.

Eftir að Trump var kjörinn forseti var Flynn svo skipaður þjóðaröryggisráðgjafi Trump, en var gert að segja af sér eftir 23 daga í embætti þar sem sannað þótti að hann hefði sagt ósatt um samskipti sín við sendiherra Rússa í Bandaríkjunum.

Þeir Manafort og Flynn höfðu óbein tengsl við rússneska embættismenn sem virtust öryggir með að hægt væri að hafa áhrif á stefnu Trump í málefnum Rússlands í gegnum þá félaga.

Nokkrar rannsóknir standa nú yfir í Bandaríkjunum sem snúa að því með hvaða hætti Rússar reyndu að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar og tengsl starfsfólks Trump og fulltrúa rússneskra stjórnvalda.


Tengdar fréttir

Flynn neitar að afhenda gögn

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump, og miðpunktur í rannsókn á mögulegum tengslum starfsmanna Trump við Rússland mun neita að afhenda þingnefnd gögn í tengslum við rannsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×