Handbolti

Allt annar varnarleikur og sigur á Pólverjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Elí varði vel í seinni hálfleiknum, alls níu skot.
Ágúst Elí varði vel í seinni hálfleiknum, alls níu skot. vísir/eyþór
Íslenska karlalandsliðið í handbolta bar sigurorð af því pólska, 24-21, á Gjensidige Cup, fjögurra liða æfingamóti í Noregi. Staðan í hálfleik var 13-12, Íslandi í vil.

Þetta var annar leikur Íslands á mótinu en í gærkvöldi tapaði íslenska liðið fyrir því norska, 36-30.

Varnarleikur Íslands var miklu sterkari í dag en gegn Noregi. Íslensku strákarnir héldu Pólverjum í 12 mörkum í fyrri hálfleik og aðeins níu í þeim seinni.

Stephen Nielsen varði fjögur skot í fyrri hálfleik en Ágúst Elí Björgvinsson kom virkilega sterkur inn í sínum fyrsta landsleik og varði níu skot í seinni hálfleiknum.

Líkt og í gær var Ómar Ingi Magnússon markahæstur í íslenska liðinu. Selfyssingurinn skoraði sjö mörk, þar af þrjú af vítalínunni. Tandri Már Konráðsson kom næstur með fimm mörk.

Sigvaldi Guðjónsson, Geir Guðmundsson og Arnar Freyr Ársælsson skoruðu sín fyrstu mörk fyrir íslenska landsliðið í dag.

Síðasti leikur Íslands á mótinu er gegn Svíþjóð á sunnudaginn.

Mörk Íslands:

Ómar Ingi Magnússon 7/3, Tandri Már Konráðsson 5, Sigvaldi Guðjónsson 2, Gunnar Steinn Jónsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Geir Guðmundsson 1, Arnar Freyr Ársælsson 1, Atli Ævar Ingólfsson 1, Vignir Stefánsson 1.

Varin skot:

Stephen Nielsen 4, Ágúst Elí Björgvinsson 9.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×