Enski boltinn

AC Milan að ræða við umboðsmann Diego Costa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það eru oft læti í kringum Diego Costa.
Það eru oft læti í kringum Diego Costa. Vísir/Getty
Diego Costa er mögulega á leiðinni til ítalska félagsins AC Milan en eins og kom fram á Vísi í dag þá vill Antonio Costa losna við markahæsta leikmann Englandsmeistara Chelsea. Costa greindi frá því að hann hefði fengið skilaboð frá ítalska stjóranum en samband þeirra hefur verið stirt í vetur.

Sky Sports hefur heimildir fyrir því að AC Milan sé komið í viðræður við umboðsmann Diego Costa um að framherjinn klæðist búningi AC Milan á næstu leiktíð.

Jorge Mendes, umboðsmaður Costa, hitti Marco Fassone og Massimiliano Mirabelli,yfirmenn hjá AC Milan, fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Cardiff. Menn ætla að hittast aftur í vikunni.

AC Milan hefur reyndar áhuga á þremur skjólstæðingum Mendes því þeir eru líka á eftir þeim Andre Silva, framherja Porto, og James Rodriguez, miðjumanns Real Madrid.

Efstur á innkaupalistanum er samt Andrea Belotti, framherji Toronto. AC Milan er búið að senda inn 39 milljón punda tilboð í Belotti en Torino vill helst selja hann til liðs utan Ítalíu ekki síst þar sem liðið gæti þá fengið meira fyrir hann.

Það kemur líka til greina fyrir Diego Costa að fara til Kína en kínversk félög sýndu honum áhuga í janúarglugganum. Það er hinsvegar búið að fækka útlendingum úr 4 í 3 í hverju liði sem flækir málið.

AC Milan kemur því sterkt inn en ítalska liðið hefur nú peninga til að eyða í nýja leikmenn eftir að kínverskir fjárfestar komu inn í félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×