Fótbolti

Eldur í einum af HM-leikvöngunum í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin tengist ekki fréttinni.
Myndin tengist ekki fréttinni. Vísir/Getty
Heimsmeistarakeppnin í fótbolta fer fram í Rússlandi eftir aðeins tíu mánuði en heimamenn eru enn að byggja nokkra af leikvöngunum sem keppt verður á næsta sumar.

Það gengur ekki klakklaust fyrir sig af klára verkið því í dag kom upp eldur á nýja leikvanginum í borginni Samara. Þetta er annað skiptið á síðustu sjö vikum þar sem eldur kviknar á HM-leikvangi.  Reuters segir frá.

Leikvangurinn í Samara skemmdist þó ekki og enginn verkamaður meiddist í eldinum. Eldurinn kom upp í rusli tengdum framkvæmdunum sem átti að vera búið að fjarlægja af svæðinu.

Samara er 1,1 milljón manna borg 850 kílómetrum suðaustur af höfuðborginni Moskvu. Sex leikir á HM 2018 fara fram í borginni þar á meðal einn leikur í átta liða úrslitunum.

Leikvangurinn í Samara heitir Cosmos Arena, kostaði 320 milljónir dollara og mun taka tæplega 45 þúsund manns í sæti.  Fyrsti HM-leikurinn á vellinum verður 17. júní 2018.

Eldur braust einnig út á leikvangi í Volgograd í júní en þar var kennt um að byggingaraðilar fór ekki eftir öryggisreglum.

HM 2018 fer fram á tólf leikvöngum í ellefu borgum og þar á meðal eru Moskva, Sankti Pétursborg og Sotsjí.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í baráttu um að komast á HM í Rússlandi en íslenska liðið er í öðru sæti í sínum riðli í undankeppninni eins og staðan er núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×