Trump kom fram með þeim David Perdue og Tom Cotton og kynnti frumvarpið sem þingmennirnir lögðu fram í apríl, en hefur verið breytt. Þingmennirnir segja það byggja á innflytjendakerfum Ástralíu og Kanada.
Samkvæmt því verður löglegum innflytjendum fækkað úr rúmlega einni milljón á ári um helming á næstu tíu árum. Kerfið mun byggja á stigum, þar sem þeir sem vilja flytja til Bandaríkjanna fá stig fyrir enskukunnáttu, menntunarstig og starfskunnáttu, svo eitthvað sé nefnt.
Ætlað að vernda verkamenn
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að einungis einn af hverjum fimmtán innflytjendum komi til Bandaríkjanna vegna hæfileika þeirra og að núverandi kerfi sé ekki í stakk búið til að veita slíkum innflytjendum forgang.
Trump sagði breytingunum ætlað að vernda bandaríska verkamenn og þar á meðal meðlimi minnihlutahópa, frá aukinni samkeppni um láglaunastörf. Hann sagði að núverandi kerfi vera ósanngjarnt ríkisborgurum og verkamönnum.
Framtíð frumvarpsins í þinginu er þó ekki örugg. Repúblikanar eru með 52 þingmenn á móti 48 á öldungadeildinni en þeir þurfa 60 til að koma í veg fyrir málþóf. Búist er við því að demókratar muni mótmæla frumvarpinu verulega og jafnvel er búist við því að hófsamir repúblikanar muni einnig vera á móti frumvarpinu.