Handbolti

Kiel og PSG vilja bæði blanda sér í kapphlaupið um Aron Pálmarsson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik með Vezprem.
Aron Pálmarsson í leik með Vezprem. Vísir/EPA
Samkvæmt heimildum íþróttadeildar 365 ætla þýska liðið Kiel og franska stórliðið Paris Saint Germain bæði að taka þátt í kapphlaupinu um Aron Pálmarsson.

Framtíð íslenska landsliðsmannsins hefur verið í óvissu eftir að Aron Pálmarsson neitaði að mæta á æfingu hjá ungverska liðinu Vezprem á dögunum. Við það fór allt í bál og brand en forráðamenn ungverska liðsins tilkynntu í framhaldinu að Aron hefði samið við spænska stórliðið Barcelona árið 2018. Aroni var jafnframt hótað að Vezprem færi með málið fyrir dómstóla.

Ungverska félagið hefur ekki náð samkomulagi við Barcelona um kaupverð en forráðamenn Vezprem vildu fá meiri pening en spænska liðið var tilbúið að borga til að leysa Aron undan samningi. Barcelona ætlaði bara að bíða þar til að samningur hans kláraðist.

Aron á enn eftir eitt ár eftir af samningi sínum við ungverska félagið. Það eru hinsvegar fleiri stórlið handboltans farin að blanda sér í málið.

Þýska liðið Kiel og franska stórliðið PSG eru sögð vera að skoða þann möguleika að kaupa upp samning Arons við Vesprem og borga sem sagt þá upphæð sem ungverska liðið sættir sig við til að losa leikmanninn undan samningnum. Aron lék áður með þýska liðinu og vann meðal annars marga titla undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Ef það tekst ekki er ljóst að málið verður vandleyst en engar líkur eru taldar á því að Barcelona borgi þá upphæð sem til þarf til að losa Aron frá Ungverjalandi.

Þetta hefur hins vegar ekki fengist staðfest og ekki náðist í umboðsmann Arons Pálmarssonar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×