Fótbolti

Heimir: Stuðningsmenn Everton eiga eftir að elska Gylfa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi byrjaði frábærlega með sínu nýja liði.
Gylfi byrjaði frábærlega með sínu nýja liði. vísir/getty
Heimir Hallgrímsson fylgdist að sjálfsögðu vel með fyrsta leik Gylfa Þórs Sigurðssonar í byrjunarliði Everton gegn Hajduk Split í fyrradag. Gylfi skoraði frábært mark í upphafi seinni hálfleiks með skoti rétt fyrir innan miðju.

Heimir er ánægður með að félagaskipti Gylfa til Everton séu frágengin og Hafnfirðingurinn sé byrjaður að spila og skora með nýja liðinu.

„Hann á eftir fá að fullt af spiltíma og vera í lykilhlutverki þarna. Þetta er gott skref fyrir hann, gott lið og metnaðarfullur þjálfari [Ronald Koeman]. En við erum ánægðastir með að þessi félagaskiptasaga sé búin og óvissunni sé lokið. Hann byrjaði vel, með marki og góðri spilamennsku,“ sagði Heimir sem býst við því að stuðningsmenn Everton taki ástfóstri við Gylfa.

„Ég er 100% viss um að stuðningsmenn Everton eiga eftir að elska hann. Þetta er verkamannalið og stuðningsmennirnir vilja að leikmennirnir séu vinnusamir og það er Gylfi svo sannarlega. Ég veit að íbúar Liverpool eiga eftir að elska hann, allavega þeir bláu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×