Bandaríska varnarmálaráðuneytið mun meina transfólki um að skrá sig í herinn og fær heimild til að leysa það frá herþjónustu samkvæmt minnisblaði frá Hvíta húsinu. Lýsir það hvernig framfylgja skuli banni Donalds Trump forseta við transfólki í hernum.
Ráðuneytið fær sex mánuði til að koma banninu í framkvæmd, að því er Wall Street Journal greindi fyrst frá.
Samkvæmt leiðbeiningum Hvíta hússins á James Mattis, varnarmálaráðherra, að meta hversu hæft transfólk er til að starfa á vígvellinum, taka þátt í æfingum eða búa á skipi um magra mánaða skeið þegar hann ákveður hvort hann leysi það undan herþjónustu.
Herinn á einnig að hætta að greiða fyrir kynleiðréttingarmeðferðir hermanna, samkvæmt skipan Hvíta hússins.
Formleg skipun gefin á næstu dögum
Trump forseti tilkynnti fyrst um bannið í röð tísta 26. júlí. Joseph Dunford, formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, sagði þá að engin stefnubreyting yrði hjá hernum fyrr en Mattis fengi beina skipun frá forsetanum.
Formlegar leiðbeiningar um hvernig banninu skuli háttað verða sendar varnarmálaráðuneytinu á næstu dögum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Þúsundir transfólk gegna herþjónustu í Bandaríkjunum en ríkisstjórn Baracks Obama gerði því kleift að starfa í hernum í fyrra.
Leiðbeiningar gefnar út um bann við transfólki í Bandaríkjaher

Tengdar fréttir

Trump: Transfólk má ekki gegna herþjónustu
Transfólki verður bannað að gegna allri herþjónustu samkvæmt ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann telur transfólk truflun og byrði á Bandaríkjaher.

Engar tafarlausar breytingar á högum transfólks innan hersins
Yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjahers segir að engar breytingar verði gerðar fyrr en dómsmálaráðherra hafi lagt fram áætlun um stöðu transfólks í hernum.

Óvissa vegna banns Trump við transfólki í hernum
Ákvörðun Donalds Trump um að banna transfólki að gegna herþjónustu kom hermálayfirvöldum í opna skjöldu. Blaðafulltrúi Hvíta hússins getur ekki svarað hvort hermenn sem eru þegar á vígvellinum verði sendir heim vegna bannsins.