Fótbolti

Heimir: Engin skömm að tapa hér þótt að það séu allir drullu svekktir

„Þetta var verðugur andstæðingur hér í dag og það er engin skömm að tapa hér en auðvitað eru allir drullu svekktir,“ sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska liðsins, í viðtali við Arnar Björnsson í Tampere aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis í dag eftir tap í Finnlandi.

„Fyrri hálfleikurinn var ekki góður, sérstaklega framan af. Finnarnir voru ofan á og voru mun ákveðnari í baráttunni. Fyrir vikið voru þeir að vinna fyrsta og annan bolta.“

Heimi fannst íslenska liðið gleyma sér í pirringi á köflum.

„Það fór svolítið í taugarnar á strákunum að þeim fannst Finnarnir spila ansi harkalega og dómarinn ekki dæma vel í dag. Þetta fór allt í taugarnar á mönnum og menn misstu aðeins hausinn en undir lok fyrri hálfleiks og í seinni var spilamennskan mun betri,“ sagði Heimir sem varði Rúrik sem fékk tvö gul spjöld á aðeins mínútu.

„Hann gerir allt sem hann getur til að brjóta ekki á honum en hællinn virðist snerta hann. Líklegast verðuru að dæma á þetta en mér fannst þetta hart sem annað gula spjaldið.“

Heimir hrósaði finnska liðinu.

„Við höfum held ég ekki áður lent í svona miklu mótlæti, kannski voru menn eitthvað með það í huganum að þetta yrði auðveldur leikur en finnska liðið fékk sjálfstraustið sem þeim hefur vantað með því að skora svona snemma leiks,“ sagði Heimir sem var heldur ósáttari með dómgæsluna:

„Hann átti ekkert góðan dag frekar en íslenska liðið en það koma svona leikir. Við þurfum að geta haldið einbeitingu á leiknum þegar þetta kemur upp.“

Framundan er gríðarlega mikilvægur leikur gegn Úkraínu.

„Það tók gríðarlega á að sækjast eftir þessu marki, sérstaklega manni færri og menn verða kannski örlítið þreyttir á morgun en fyrst og fremst eru menn sárir og svekktir en verða að rífa sig upp.“

Framundan er spennandi barátta við Tyrki og Úkraínumenn um annað sæti riðilsins en hann á von á því að fyrsta sætið sé úr sögunni.

„Þetta ræðst ekki fyrr en í lokaumferðinni, lið eiga eftir að tapa stigum og það eru margir leikir eftir innbyrðis. Líklegast er baráttan um fyrsta sætið töpuð en það er aldrei að vita. Menn verða að gjöra svo vel að rífa sig upp og mæta af krafti í Úkraínuleikinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×