Íslenski boltinn

Blikar búnir að fá á sig jafn mörg mörk og tímabilin 2015 og 2016 til samans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elfar Freyr Helgason og Damir Muminovic voru frábærir 2015 og 2016 en hafa ekki ekki átt gott tímabil í ár.
Elfar Freyr Helgason og Damir Muminovic voru frábærir 2015 og 2016 en hafa ekki ekki átt gott tímabil í ár. vísir/andri marinó
Staða Breiðabliks í Pepsi-deild karla er ekki góð. Þegar tvær umferðir eru eftir eru Blikar í 7. sæti með 24 stig, fjórum stigum frá fallsæti. Breiðablik tapaði 4-3 fyrir Grindavík í gær en þetta var þriðja tap liðsins í röð.

Staðan Breiðabliks verður enn verri ef Víkingur Ó. vinnur Víking R. í síðasta leik 20. umferðar í dag.

Öfugt við síðustu tvö ár hefur varnarleikurinn verið helsti Akkilesarhæll Breiðabliks í sumar.

Blikar fengu á sig fjögur mörk í Grindavík í gær og hafa nú fengið á sig 33 mörk í 20 leikjum í Pepsi-deildinni.

Til samanburðar fékk Breiðablik á sig 33 mörk samtals 2015 og 2016, í 44 deildarleikjum.

Blikar fengu aðeins 13 mörk á sig 2015 og héldu 12 sinnum hreinu. Í fyrra fengu þeir 20 mörk á sig og héldu átta sinnum hreinu.

Breiðablik þurfti að bíða fram í 9. umferð eftir því halda hreinu í fyrsta sinn í ár. Blikar hafa aðeins þrisvar sinnum haldið hreinu í allt sumar.

Breiðablik á eftir að mæta ÍBV heima og FH úti í síðustu tveimur umferðunum í Pepsi-deildinni.

Varnarleikur Breiðabliks:

2015: 13 mörk fengin á sig, 12 sinnum haldið hreinu

2016: 20 mörk fengin á sig, 8 sinnum haldið hreinu

2017: 33 mörk fengin á sig, 3 sinnum haldið hreinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×