Umfjöllun og viðtöl: Grótta 21 - 24 Valur | Meistararnir byrja á sigri

Einar Sigurvinsson skrifar
Vísir/Eyþór
Valur sigraði Gróttu með þremur mörkum, 21-24 í fyrsta leik liðanna í Olís-deild karla í kvöld. Leikurinn fór fram í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi, heimavelli Gróttu og var staðan í hálfleik 9-14 fyrir Valsmönnum.

Valsmenn byrjuðu leikinn töluvert sterkari og eftir níu mínútna leik voru þeir komnir með fjögurra marka forystu, 1-5. Grótta náði síðan að minnka muninn niður í eitt mark á 17. mínútu en með þéttum varnarleik náði Valur yfirhöndinni á leiknum og endaði á leiða með fimm mörkum í hálfleik.

Grótta byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti. Valsmönnum gekk illa að komast í gegnum vörn Gróttu manna og á 37. mínútu minnkaði Bjarni Ófeigur muninn í 13-14. Grótta hélt sér inni í leiknum og á 44. mínútu jafnaði Maximilian Jonsson fyrir Gróttu úr víti, staðan orðin 17-17.

Í kjölfarið á jöfnunarmarkinu stigu Valsmenn upp og skoruðu fjögur mörk í röð. Eftir það var erfitt fyrir Gróttu að komast inn í leikinn. Lokaniðurstaðan 21-24 fyrir Val.

Afhverju vann Valur?

Valsmenn spiluðu á köflum frábæran varnarleik sem Grótta átti fá svör við og átti Sigurður Ingiberg nokkrar mjög mikilvægar vörslur. Í sókninni var síðan Magnús Óli Magnússon öflugur með 9 mörk og markahæsti maður vallarins.

Þessir stóðu upp úr:

Magnús Óli Magnússon virkaði fullur sjálfstraust með 9 mörk og var einn besti maður vallarins. Næst á eftir í Valsliðinu komu þeir Anton Rúnarsson og Ólafur Ægir með fjögur mörk hvor. Valsmenn spiluðu síðan frábæran varnarleik og náðu á köflum alveg að loka á sóknir Gróttu.

Hjá Gróttu var Maximilian Jonsson að koma mjög sterkur inn með 7 mörk skoruð en hann var einnig mjög öflugur í vörn Gróttu, sem sýndi á köflum mjög fínan leik í dag. Hreiðar Levý átti líka mjög fínan leik í markinu hjá Gróttu með 10 skot varin.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Gróttu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir virtust hafa náð að leysa úr þeim vanda í upphafi seinni hálfleiks en þá settu Valsmenn í lás og náðu að klára leikinn nokkuð örugglega.

Hvað gerist næst?

Strax næsta sunnudag á Valur heimaleik á móti Víkingum. Víkingum er ekki spáð góðu gengi í vetur og verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur á móti meisturunum. Grótta á síðan næst útileik á mánudaginn gegn ÍR. Bæði lið hafa byrjað sína fyrstu leiki í deildinni á tapi og munu eflaust gefa allt í sölurnar til þess að ná fyrsta sigri tímabilsins.

 



Snorri Steinn: Það kemur að því að ég spila.


„Mjög ánægður með sigurinn og mjög ánægður með tvö stig, ekki spurning. Ég er bara nokkuð ánægður með leikinn svona heilt yfir. Auðvitað er fullt af hlutum sem við þurfum að laga en það er gott að vera komnir á blað og að byrja þetta á sigri,“ Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við Vísi í leikslok.

„Við förum inn í hálfleikinn með fimm mörk og ætluðum náttúrlega að byrja seinni hálfleikinn allt öðruvísi en við gerðum og hleyptum þeim inn í leikinn. Við gerðum það eiginlega þrisvar sinnum, við vorum komnir með þetta nokkuð góða stöðu en gerum þetta að aðeins meiri leik en þetta hefði þurft að vera. Við erum með einverja níu til tíu tæknifeila í seinni hálfleik og fjórtán í heildina, það er náttúrulega of mikið. Svo er smá spenna í þessu í lokin, þetta var hörkuleikur, barátta og spenningur, það er bara fínt að vinna,“ Snorri Steinn.

„Hvern viltu að ég taki út úr liðinu?“ spurði Snorri á móti, aðspurður hvort hann ætlaði sér að fara að koma inn á. „Ég var með og Anton í dag á miðjunni og var ánægður með þá báða. En jú, það kemur að því að ég spila, hvenær það verður kemur bara í ljós,“ sagði Snorri Steinn, þjálfari Valsmanna, að lokum.



Hreiðar Levý: Vona að ég sé ekki traktor sem taki 20 mínútur að komast í gang

„Við hefðum auðvitað viljað fá stig eða sigur, en það var fullt jákvætt í þessum leik. Ég er stoltur af baráttunni í liðinu, við héldum alltaf áfram. Við hefðum getað endað þennan leik nokkrum sinnum, sprungið og gefist upp en við héldum alltaf áfram. Við þurfum bara að halda svona áfram í allan vetur, næsta sókn skiptir máli og næsta vörn skiptir máli,“ sagði markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson í leikslok.

„Einhver reynsla og svona“ segir Hreiðar, þegar hann er spurður hvað það hafi verið sem vantaði til að Grótta næði að komast inn í leikinn eftir að hafa jafnað. „Stemningin var komin okkar megin og þetta leit ágætlega út, en þá missum við boltann þrisvar í röð og þeir fá þrjú hraðaupphlaup á einni og hálfri mínútu og komast aftur þremur mörkum yfir,“ sagði Hreiðar Levý.

„En núna bara höldum við áfram, við gáfum þeim leik allan tímann og við vorum svona komnir með ágætis lausnir á sóknarleiknum þeirra, en þetta er Íslands- og bikarmeistarar og allt það. Auðvitað vildum við vinna en ég er samt drullu stoltur af strákunum.“

Hreiðar segir að hann eigi mikið inni og var ekki alveg sáttur með eigin frammistöðu. „Ég er að vona að ég sé ekki einhver traktor sem taki 20 mínútur að komast í gang. Mér fannst ég mjög lélegur fyrstu 20 mínúturnar en síðustu 40 er ég á pari myndi ég segja,“ sagði Hreiðar Levý.

„Það er frábært að vera kominn aftur heim, frábært að vera kominn í þessa umgjörð og þáttinn, Seinna bylgjan og allt þetta. Bara gaman að taka þátt í þessu.“ sagði Hreiðar að lokum.



Magnús: Fórum dálítið aftur á hælana

„Mjög þægilegt að ná sigur í fyrsta leik. Við áttum í erfiðleikum í byrjun seinni hálfleiks en við sýndum karakter og náðum að klára þetta,“ sagði Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals.

„Grótta hætta aldrei og eru með frábært lið. Þegar við komumst yfir fórum við dálítið aftur á hælana og slökuðum. Það gat ekkert annað gerst þegar við gerum þetta. Við hefðum átt að halda áfram, keyra yfir þá og hafa þetta ekkert spennandi en Grótta er gott lið,“ sagði Magnús Óli aðspurður hvort leikurinn hafi ekki verið óþarflega spennandi.

„Ég var að finna mig vel í fyrri hálfleik, það opnuðust færi og ég var að nýta vel. Þannig að ég sáttur með minn leik,“ sagði Magnús en hann var markahæsti maður vallarins með níu mörk.

„Það er mjög þægilegt, maður er í comfort zone hérna á Íslandi og ég er mjög sáttur að vera kominn heim aftur,“ sagði Magnús Óli.



Kári Garðarsson: Við ætlum allavega ekki að falla

„Ég er bara ánægður með margt, við byrjum frekar illa. Við lendum 5-1 undir og þá leist mér nú ekki á blikuna en strákarnir sýndu mikinn karakter og komust inn í leikinn. Á löngum köflun erum við að spila mjög vel á móti þessu Valsliði sem er gríðarlega vel skipað,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu.

„Fyrir utan fyrsta korterið spilum við varnarleikinn vel og náum að halda í við þeirra hröðu leikmenn og góðu skyttur. Hreiðar kom síðan hægt og bítandi með vörninni þegar leið á leikinn. Svo voru glefsur í sóknarleiknum góðar. Auðvitað erum við að spila á mjög ungum leikmönnum sem hafa ekki spilað mikið í efstu deild og við erum að slípa saman í nýtt lið. Það er ýmislegt sem er hægt að vinna í en ég held að það sé ýmislegt jákvætt líka,“ sagði Kári

Maximilian Jonsson kom sterkur inn í lið Gróttu í þessum leik og skoraði 7 mörk ásamt því að vera sterkur í vörninni.

„Mér fannst Max bara fínn, hann spilaði leikinn vel, var góður varnarlega og átti sín móment í sóknarleiknum. Við þurfum bara aðeins að slípa okkur betur saman þar og vinna betur sem ein heild, en það voru margar sóknir ágætar og þar var hann líka drjúgur,“ sagði Kári.

„Við ætlum allavega ekki að falla, það er nokkuð ljóst,“ sagði Kári spurður í spárnar sem hafa verið að setja Gróttu í fallsæti. „Við bara förum inn í þennan vetur og ætlum að selja okkur dýrt í öllum leikjum. Mér fannst góður tónn vera settur fyrir framhaldið og ég er mjög ánægður með effortið hjá stráknum, hugarfarið og baráttuna. Það er hægt að byggja á því allverulega,“ sagði nokkuð bjartsýnn Kári Garðarsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira