Erlent

Trump segir ekkert samkomulag hafa náðst

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að ekkert samkomulag hafi náðst á milli hans og demókrata varðandi áframhaldandi tilvist DACA-áætlunarinnar svokölluðu. Þau Nanci Pelosi og Chuck Schumer, leiðtogar minnihlutanna í fulltrúadeildinni og öldungaráðinu, sögðu í gærkvöldi að þau hefðu samið við forsetann um DACA og um að ekkert yrði af byggingu veggsins umdeilda á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Hvíta húsið hefur sagt að þessi atriði hefðu verið rædd á fundinum í gær, en ekkert samkomulag hefði náðst.

Sjá einnig: Kvöldverðafundur í Hvíta húsinu skilaði samkomulagi

Í röð tísta sagði Trump í morgun að ekkert samkomulag hefði náðst varðandi DACA. Þá væri þegar byrjað að byggja vegginn með tilliti til þess að staðið er að umbótum á þeim veggjum og girðingum sem þegar eru til staðar á landamærunum.

Forsetinn tísti einnig um DACA og spurði hvort nokkur vildi í alvörunni reka „gott, mentað og afkastamikið ungt fólk sem er í vinnu, sumir þjóna í hernum? Í alvörunni!“

Trump sagði umrætt ungt fólk hafa verið í Bandaríkjunum um margra ára skeið og þau hefðu komið til landins með foreldrum sínum þegar þau voru ung.

Um 800.000 manns hafa fengið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum til tveggja ára í senn samkvæmt DACA-áætluninni sem Barack Obama kom til framkvæmda með forsetatilskipun árið 2012.

Tístin enda svo á orðunum; „Plús UMFANGSMIKIÐ landamæraeftirlit“, eins og til hafi staðið að bæta við þau. Næsta tíst forsetans sem birtist um hálftíma síðar fjallar þó um að hann sé á leið til Flórída.

Bandamenn Donald Trump í Repúblikanaflokknum brugðust reiðir við fregnum um samkomulag forsetans og demókrata í gær. Þingmenn flokksins spáðu meðal annars því að dyggustu stuðningsmenn Trump myndu snúast gegn honum ef fregnirnar reyndust réttar, samkvæmt frétt Washington Post.

Þá lýstu repúblikanar yfir furðu sinni á því að Trump ætlaði að snúa baki við sínum stærstu kosningaloforðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×