Handbolti

Íslenskt þjálfarauppgjör í Meistaradeildinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson og Alfreð Gíslason.
Aron Kristjánsson og Alfreð Gíslason. Vísir/Getty
Íslensku þjálfararnir Alfreð Gíslason og Aron Kristjánsson mætast í kvöld með lið sín í Meistaradeildinni í handbolta.

Kiel, lið Alfreðs, tekur þá á móti Álaborg, liði Arons í Sparkassen-Arena í Kiel. Álaborgarliðið hefur byrjað vel í Meistaradeildinni á þessu tímabili en ekki er sömu sögu að segja af Kiel.

Kiel er í mikilli krísu þessa dagana en þýska stórliðið hefur tapað fimm af fyrstu átta leikjum sínum í þýsku deildinni og Meistaradeildinni.

Báðir Meistaradeildarleikirnir hafa tapast fyrst með þremur mörkum á heimavelli á móti Paris Saint-Germain (22-25) og svo með 11 marka mun á útivelli á móti pólska liðinu Vive Tauron Kielce (21-32).

Álaborgarliðið vann 32-30 sigur á Celje í síðasta leik og missti síðan nánast frá sér unninn leik á móti Flensburg-Handewitt í fyrstu umferðinni.  Flensburg vann 30-27 eftir að hafa snúið leiknum við á síðustu tíu mínútunum.

„Kiel er fyrst og fremst klassaklúbbur sem er með mjög sterkan heimavöll. Það er pressa á liðinu og því verða þeir eflaust enn tilbúnari fyrir leikinn í kvöld,“ sagði Aron Kristjánsson í viðtali við dr.dk.

Ætti pressan á Kiel ekki að hjálpa Álaborg í kvöld?

„Það er ekki gott að segja því þetta gæti farið í báðar áttir. Ef við stöndumst pressuna þeirra í byrjun þá eigum við möguleika. Ef þeir byrja aftur á móti vel og spila á fullum krafti í 60 mínútur þá verður þetta erfitt. Það er munur á Kiel á heima- og útivelli,“ sagði Aron og hann er nú ekki alltof bjartsýnn fyrir hönd síns liðs.

„Þeirra möguleikar eru 70 á móti 30. Ef hlutirnir gagna upp hjá okkur og ef þetta verður ekki góður leikur hjá þeim þá getur allt gerst,“ sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×