Stjórnendur Facebook, stærsta samfélagsmiðils heims, hafa viðurkennt að starfsmenn þess hafi fundið að minnsta kosti 3.000 auglýsingar sem Rússar keyptu. Þær voru keyptar í gegnum 470 gervisíður og reikninga fyrir að minnsta kosti hundrað þúsund dollara.
Hluti auglýsinganna virðist hafa haft það að markmiði að ala á sundrungu í bandarísku samfélagi. Washington Post hefur eftir fólki sem þekkir til auglýsinganna að sumar þeirra hafi farið lofsamlegum orðum um baráttuhópa svartra eins og Líf svartra skipta máli en í öðrum hafi því verið haldið fram að sömu hópar væru vaxandi pólitísk ógn. Í enn öðrum var athygli vakin á stuðningi múslimakvenna við Hillary Clinton.
Auglýsingarnar birtust ólíkum hópum notenda sem voru skilgreindir út frá pólitískum og lýðfræðilegum einkennum þeirra.
Leyniþjónustunefndir Bandaríkjaþings ætla að fara yfir auglýsingarnar sem Facebook hefur afhent upplýsingar um á næstu vikum.

Sundrungaráróðrinum sem Rússar keyptu er sagður svipa til málflutnings Donalds Trump og stuðningsmanna hans sem var dreift á samfélagsmiðlum og hægrisinnuðum vefsíðum í kosningabaráttunni.
Nokkrar þingnefndir og sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytins rannsaka nú hvort að framboð Trump hafi átt samráð við rússnesk stjórnvöld.
Alex Stamos, yfirmaður öryggismála Facebook, lýsti því yfir fyrr í þessum mánuði að flestar auglýsinganna hafi ekki minnst beint á forsetakosningarnar eða neinn ákveðinn frambjóðanda.
„Hins vegar virtust auglýsingarnar og reikningarnir beinast að því að magna upp sundrandi félagsleg og pólitísk skilaboð yfir allt pólitíska litrófið og komu inn á málefni allt frá LGBT-málum til kynþáttamála, innflytjenda og byssueignar,“ sagði Stamos í yfirlýsingu sinni.