Körfubolti

Barkley: Þessi grey geta ekki spilað tvo leiki í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Charles Barkley finnst leikmenn í dag vera ofdekraðir.
Charles Barkley finnst leikmenn í dag vera ofdekraðir. vísir/getty
Charles Barkley liggur sjaldnast á skoðunum sínum. Hann blandaði sér í umræðuna um að lengja tímabilið í NBA-deildinni í körfubolta til að minnka álagið. Leikjunum verður ekki fækkað en þeir verða leiknir yfir lengra tímabil.

Barkley vorkennir leikmönnum deildarinnar nákvæmlega ekki neitt að spila tvo leiki á tveimur dögum.

„Þessi grey geta ekki spilað tvo leiki í röð. Við viljum gera þetta þægilegt fyrir þá. Þeir fá 30-40 milljónir dollara á ári og við megum ekki ofkeyra þá. Einkaþotur og fjögurra stjörnu hótel eru ekki nóg. Ég vil hrósa NBA fyrir að gera þetta þægilegt fyrir þessi grey,“ sagði Barkley.

Hann lagði svo kaldhæðnina til hliðar og lét leikmenn dagsins í dag heyra það.

„Ég er svo reiður að NBA sé að segja þessum leikmönnum, sem eru með 30-40 milljónir í árslaun, að þeir geti ekki spilað tvo daga í röð. Þetta er skrípaleikur,“ sagði Barkley og rifjaði upp hvernig hlutirnir gengu fyrir sig þegar hann var að spila.

„Við flugum með áætlunarflugi og spiluðum þrjá leiki á jafn mörgum dögum. Ég hef setið með mönnum sem tóku lestina í leiki og spiluðu þrjá daga í röð.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×