Fótbolti

Heimir: Pössum að menn verði ekki of metnaðarfullir

Tómas Þór Þórðarson í Eskisehir skrifar
Strákarnir okkar æfðu í síðasta sinn á glæsilegum keppnisvellinum í Eskisehir í hádeginu í dag eftir blaðamannafund Heimis og Arons. Undirbúningur hefur verið góður en Heimir Hallgrímsson er bæði að undirbúa liðið fyrir fótboltann og stemninguna sem verður á vellinum á morgun en það verða brjáluð læti og óvinvætt andrúmsloft.

„Þetta er líka bara sálfræðilegt. Það finnst öllum gaman að spila leiki á völlum þar sem er brjáluð stemning. Við skiljum hvort sem er ekkert hvort þeir eru að öskra áfram Ísland eða áfram Tyrkland. Við bara hugsum þetta bara eins og það sé stemning á vellinum og við ætlum að taka þá orku og láta það hjálpa okkur en ekki öfugt,“ sagði Heimir við íþróttadeild fyrir æfingu liðsins í dag.

„Við erum með skýra hugmynd um hvað við ætlum að gera. Það er erfitt að lesa í Tyrkina bæði er varðar mannskap og leikaðferð. Þeir áttu góðan leik síðast og Lucescu er fastheldinn þjálfari þannig að við reiknum fastlega með því að þetta verði svipað og ég gegn Króatíu,“ sagði Heimir.

Leikurinn á morgun er enn einn sem kalla má stærsta leikinn í sögunni því gullpotturinn handan regnbogans er auðvitað farseðill á sjálft heimsmeistaramótið á næsta ári. Það eru þó tveir leikir eftir, ekki bara þessi Tyrklandsleikur, og Heimir hefur engar áhyggjur af því að strákarnir séu að fara eitthvað fram úr sér.

„Þessir strákar eru vanir því að spila mikilvæga úrslitaleiki. Þeir vita allir hvað er í húfi. Það er miklu meira en bara að komast til Rússlands í þessari viku. Þeir vita hvað er í húfi og það er enginn að fara fram úr sér. Það er af og frá,“ segir Heimir.

„VIð þurfum bara helst að passa það að menn verði ekki of metnaðarfullir og reyni að gera of mikið. Frekar að vera skynsamir. Við þurfum að vera skynsamir gegn Tyrkjum því leikirnir þeirra leysast oft upp og við verðum að vera skipulagðir. Við erum góðir í skipulaginu,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×