Handbolti

Skiptu liðinu í tvennt og unnu tvo leiki sama daginn í sitthvorri keppninni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hvít-Rússarnir urðu eftir heima.
Hvít-Rússarnir urðu eftir heima. vísir/getty
Handbolti getur stundum verið svolítið furðulegur eins og sást vel í gær þegar ljóst var að Olís-deildarlið FH þarf að ferðast tæplega 3.000 kílómetra til að framkvæmda eina vítakastkeppni.

Hvítrússnesku meistararnir í Meshkov Brest voru í furðulegri aðstöðu í gær þegar að þeir þurftu að spila tvo leiki sama daginn í sitthvorri keppninni.

Leikjaálagið er svolítið mikið á liðunum í austurblokkinni sem eru í sinni heimadeild en taka einnig þátt í Meistaradeildinni og SEHA-deildinni þar sem bestu lið austur-Evrópu keppa.

Brest-liðið átti leik á móti Gomel í hvítrússnesku deildinni í gær og útileik á móti serbneska meistaraliðinu RK Vojvodina í SEHA-deildinni. Voru þá góð ráð dýr en þetta leystu menn ágætlega.

Liðinu var skipt í tvennt. Aðalþjálfarinn Serge Bebeshko varð eftir með hvítrússnesku leikmennina í liðinu og króatíska markvörðinn Ivan Pesic. Sá hluti vann öruggan sigur á Gomel, 26-13.

Á sama tíma í Serbíu var aðstoðarþjálfarinn Andrei Mochalov með erlendu leikmenn liðsins, menn á borð við Rastko Stojkovic, Ljubo Vukic og Petar Djordic, og pakkaði þar saman Vojvodina, 36-27.

Síðar í nóvember mun það gerast að Þýskalandsmeistarar Rhein-Neckar Löwen spila tvo leiki á móti Leipzig og Barcelona á innan við einum sólarhring en Guðjón Valur og félagar þurfa þó ekki að spila tvo leiki á nánast sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×