Handbolti

Aron til Barcelona áður en vikan er úti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson er ekki að spila handbolta þessa dagana en það horfir til betri vegar.
Aron Pálmarsson er ekki að spila handbolta þessa dagana en það horfir til betri vegar. vísir/getty
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður Íslands í handbolta, gengur í raðir spænska stórliðsins Barcelona fyrir loka vikunnar en frá þessu greinir Morgunblaðið í dag.

Aron er ekki enn byrjaður að spila á nýju tímabili eftir að hann var rekinn frá Veszprém í Ungverjalandi fyrir að mæta þar ekki til æfinga þegar undirbúningstímabilið hófst en Barcelona var búið að semja við hann frá og með næsta tímabili.

Fram kemur í grein Ívars Benediktssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, að nánast allir endar í félagskiptum Arons til Barcelona hafa verið hnýttir, þar á meðal starfslok hans við Vesszprém.

Veszprém hefur verið að heimta eina milljón evra fyrir Aron en Barcelona er sagt sleppa með að borga 700.000 evrur eða 87 milljónir íslenskra króna.

Um leið og félagaskiptin ganga í gegn mun Aron geta hafið leik með Barcelona í deildinni þar sem félagaskiptaglugginn á Spáni er enn opinn. Hann verður aftur á móti ekki gjaldgengur í Meistaradeildinni fyrr en í nóvember.

Þetta eru vitaskuld stórkostleg tíðindi fyrir íslenska landsliðið sem mætir til leiks á EM 2018 í Króatíu í janúar og er þar í mjög erfiðum riðli með Króötum, Serbum og Svíum.


Tengdar fréttir

Barcelona ætlar að kaupa Aron

Barcelona hefur samþykkt að kaupa Aron Pálmarsson undan samningi við Veszprém og er kaupverðið talið nema tæpum 87 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×