Skoðun

Stöðvum brotthvarf úr heilbrigðisgeiranum

Sólveig Bjarney Daníelsdóttir skrifar
Skilgreina þarf mönnunarþörf hverrar einingar innan heilbrigðiskerfisins og meta áhættuþætti vegna mönnunar. Eitt aðal viðfangsefni heilbrigðisstarfsmanna er að veita líkamlegum og andlega sjúkum einstaklingun umönnun. En þetta á ekki einungis við um þá veiku einstaklinga sem þeir sinna, heldur einnig gagnvart samstarfsaðilum.

Í dag ríkir ekki ágreiningur um mikilvægi þess að hafa hæft starfsfólk sem sinnir störfum sínum af alúð og á sem árangursríkastan hátt hverju sinni. Það að hafa gott starfsfólk í vinnu skiptir sköpum því mannauðurinn er dýrmætasta eign hverrar skipulagsheildar. Launakjör, vinnuaðstæður, samskipti og starfsþróun eru helstu þættirnir sem starfsfólk innan heilbrigðisgeirans horfir til. Hætta er á starfsóánægju og brotthvarfi úr starfi ef þetta fernt er stöðugt í ólagi, en því miður er það nú þegar að gerast.

Við hljótum öll að vera samhuga um, að hlúa þurfi betur að heilbrigðisstarfsfólki. Sem dæmi má nefna hjúkrunarfræðinga, en þeir sem eru nýútskrifaðir vilja helst ekki starfa við hjúkrun vegna bágra starfskjara. Ofan á það bætist svo við brotthvarf vegna aldurs og veikinda.

Hjúkrunarfræðingar bera ábyrgð á þeirri vakt sem þeir taka og ef einhver mistök eiga sér stað. Því er afar mikilvægt að mönnun sé ekki þannig að hún stofni öryggi allra í hættu.

Það er afar mikilvægt að farið sé hið fyrsta í að skilgreina mönnunarþörf hverrar einingar innan heilbrigðiskerfisins og þá sér í lagi hver hættumörkin séu. Við hjá Miðflokknum ætlum að taka á þessum vanda með beinum aðgerðum og leitast eftir samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk um úrbætur á þessu. Sú vinna verður okkur öllum til hagsbóta.

Sólveig Bjarney Daníelsdóttir starfar sem hjúkrunardeildarstjóri á geðsviði Landspítalans og skipar 3. sæti á lista Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×