Skoðun

Klúbburinn Geysir með þér út í lífið

Benedikt Gestsson skrifar
Klúbburinn Geysir er virkniúrræði fyrir fólk með geðraskanir og hefur starfað á Íslandi frá 1999. Á þessum árum hefur margt breyst til hins betra í meðferð geðsjúkra á Íslandi. Það framsýna fólk sem ruddi brautina fyrir stofnun klúbbsins á miklar þakkir skildar, enda er klúbburinn fyrsta úrræði sinnar tegundar á Íslandi þar sem skapaður er grundvöllur fyrir endurhæfingu geðsjúkra utan hefðbundinna geðdeilda sjúkrahúsanna.

Klúbburinn Geysir var aðili að International Center for Clubhouse Development sem komið var á fót árið 1994 en nafni þess breytt í Clubhouse International árið 2013. Clubhouse International hefur starfað sem regnhlífarsamtök vottaðra klúbbhúsa til þess að efla samskipti og sýn samtakanna til framtíðar, auk þess að stýra fræðslu, ráðgjöf og upplýsingagjöf til klúbbhúsa um allan heim.

Þegar Klúbburinn Geysir var stofnaður var ætíð markmiðið að gera hann fullgildan innan klúbbhúsa­hreyfingarinnar með því að sækja um vottun, jafnframt því að slík vottun yrði vegsauki og gæðaviðurkenning á starfi hans á Íslandi. Í janúar á þessu ári fékk klúbburinn vottun í fjórða sinn til þriggja ára. Að baki vottuninni liggur mikil vinna og sjálfsrýni félaga og starfsfólks klúbbsins á starfsemi hans. Að sjálfsögðu er þessi viðurkenning hvatning fyrir félaga og starfsfólk klúbbsins til að halda góðu starfi áfram og slaka ekki á kröfunum.

Í átján ár hefur klúbburinn stutt félaga til virkni á vinnumiðuðum degi í klúbbnum þar sem þátttaka í starfinu er einn grundvöllur þess að ná árangri, bæði í samskiptum og daglegum verkum. Í framhaldi af veru sinni í klúbbnum er fólk tilbúnara til þess að stíga öruggari skrefum úti í samfélaginu, bæði í vinnu og námi, og öðlast þannig betri lífsgæði í fjölbreytilegum aðstæðum daglegs lífs. Klúbburinn Geysir tekur vel á móti þér. Ef þú átt við geðræn veikindi að stríða eða átt í kröppum dansi af geðrænum toga er þér velkomið að hafa samband. Sjá nánar á: https://kgeysir.is/

 

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Klúbbsins Geysis.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×