Þingmenn Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings munu ekki gera fleiri tilraunir til að afnema sjúkratryggingakerfið sem vanalega gengur undir nafninu Obamacare. Önnur tilraun verði hins vegar gerð á næsta ári.
Þetta segir Repúblikaninn Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar. „Ég tel að það sé eitthvað sem við ættum að gera á næsta ári,“ segir Ryan í samtali við Reuters.
Nýtt frumvarp um sjúkratryggingakerfi, sem ætlað var að koma í stað Affordable Care Act eða Obamacare, var samþykkt í fulltrúadeildinni fyrr á þessu ári, en var hafnað af þingmönnum í öldungadeildinni.
Hvorki í júlí né september tókst Repúblikönum að tryggja sér nægilega mörg atkvæði í öldungadeildinni til að afnema Obamacare.
Repúblikanar hafa heitið kjósendum sínum að afnema Obamacare og koma á nýju kerfi í sjö ár, en án árangurs. Donald Trump hét því í kosningabaráttu sinni að Obamacare yrði afnumið þegar hann myndi gerast forseti.
