Handbolti

„Við köstuðum þessu frá okkur“

Einar Sigurvinsson skrifar
Gunnar Magnússon
Gunnar Magnússon vísir/anton brink
„Við vorum bara klaufar að vera ekki meira yfir í hálfleik, þetta var frábær fyrri hálfleikur. Vörnin var stórkostleg fyrstu 30 mínúturnar og við spiluðum frábærlega, sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka, eftir eins marks tap liðsins gegn Selfyssingum í kvöld.

Haukar voru töluvert betra liðið á vellinum í fyrri hálfleik en allt annað var að liðið í þeim síðari. Það tók Selfyssinga 11 mínútur að jafna leikinn eftir að hafa farið fimm mörkum undir inn í hálfleikinn.

„Í seinni hálfleik er þetta svo bara eins og svart og hvítt, miðjublokkin sem var búin að vera frábær í fyrri hálfleik bara hrinur og allir með. Það stendur ekki steinn við steini í vörninni og við bara náum ekki að klukka þá varnarlega. Við eigum bara ekki séns í þá varnarlega í seinni hálfleik og þeir ganga á lagið. Við fáum á okkur 16 mörk í einum hálfleik sem er allt of mikið fyrir okkur.“

„Ég er ekki bara ósáttur með það hvernig við fórum niður á hælana, við vorum líka að missa hausinn í klaufalegum brotum og vorum mikið einum færri. Við köstuðum þessu frá okkur.“

Aðspurður hvort hann hafi einhverjar skýringar á leik liðsins í síðari hálfleik sagði Gunnar að hann þyrfti að skoða leikinn betur.

„Við þurfum bara að leggjast yfir þetta. Auðvitað var skelfilegt að sjá hvernig sömu mennirnir og voru frábærir í fyrri hálfleik detta niður í seinni hálfleik. Að sama skapi var færanýtingin hræðileg, sérstaklega af línunni. Þegar við vorum eiga slæman kafla varnarlega vantaði okkur að klára færin líka til að halda þeim í skefjum. Við fengum nóg af færum í síðari hálfleik til að skora meira en 10 mörk, en við nýttum þau ekki.

Undir lok leiksins voru nokkrir dómar að leggjast illa í leikmenn Hauka, Gunnar vildi þó ekki meina að þetta hafi verið illa dæmdur leikur.

„Nei, ég er mest svekktur út í okkur sjálfa. Þetta var kannski eitthvað eitt og eitt atriði en ég er mest svekktur yfir því hvernig við duttum niður í seinni hálfleik. Allur minn pirringur var út í okkar drengi, hvernig við duttum niður og misstum hausinn. Þetta er ekki boðlegt.“

„Við þurfum bara að læra af þessu. Á móti jafn góðu liði og Selfoss, ef við gefum þeim blóðbragð á tennurnar þá taka þeir það, allan daginn,“ sagði svekktur Gunnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×