Handbolti

Hituðu upp fyrir leiki morgundagsins á bensíndælunni | Myndband

Nýliðar Fjölnis mæta Stjörnunni í Olís-deild karla á morgun á heimavelli en það verður seinni hluta tvíhöfðans úr Grafarvoginum þar sem Fjölnir í karla- og kvennaflokki eiga leiki í Olís-deildinni og það í beinni á Stöð 2 Sport.

Karlalið Fjölnis er enn án sigurs í deildinni eftir fimm leiki en Fjölnismenn náðu að krækja í stig gegn ÍBV á heimavelli í síðustu umferð, annað stig þeirra í vetur.

Kvennaliðið bíður enn eftir fyrsta sigri vetrarins en á morgun kemur Grótta í heimsókn, sannkallaður botnslagur en þar mætast einu tvö liðin sem eru án sigurs í Olís-deild kvenna.

Í tilefni Fjölnisdagsins voru leikmenn meistaraflokks mættir á bensíndæluna í Grafarvogi og ræddi Guðjón Guðmundsson við leikmenn.

„Þetta verður heldur betur stór leikur, botnslagur og við þurfum að fá tvö stig á morgun. Við förum fullar sjálfstrausts inn í leikinn og ætlum okkur tvö stig,“ sagði Andrea Jacobsen en sami tónn var karlamegin.

„Þetta er búið að vera svolítið erfitt í byrjun móts en við eigum heimaleik á morgun og við þurfum að fara að safna stigum. Okkar markmið er að halda okkur í deildinni en fyrst þurfum við að dæla á bílana,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson en innslag kvöldfrétta má sjá hér fyrir ofan.

Stöð 2 Sport sýnir beint frá leikjum Fjölnis og Gróttu í Olís-deild kvenna og Fjölnis og Stjörnunnar í Olís-deild karla en bein útsending úr Dalhúsum hefst klukkan 17:50 annað kvöld en einnig verður stórleikur Vals og FH sýndur annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×