Handbolti

Aron talaði við Guðjón Val: Sagði mér að fara til Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson með Barcelona-búninginn sem verður númer 34.
Aron Pálmarsson með Barcelona-búninginn sem verður númer 34. Mynd/Twitter-síða Barcelona
Barcelona hélt blaðamannafund í dag þar sem Aron Pálmarsson var kynntur sem nýr leikmaður félagsins.

Spænska félagið keypti upp samning Arons á dögunum frá ungverska félaginu Veszprém og nú getur okkar besti handboltamaður loksins farið að spila handbolta á nýjan leik.

Aron svaraði spurningum spænskra blaðamanna á fundinum og var með túlk sér við hlið.





Aron talaði meðal annars um samtal sitt við landsliðsfyrirliðann Guðjón Val Sigurðsson.

„Ég talaði við (Guðjón Val) Sigurðsson sem lék hér í tvö tímabil. Hann sagði mér að þetta væri engin spurning. Ég ætti að fara til Barcelona. Þetta væri fullkominn staður fyrir mig og að ég myndi ekki sjá eftir því,“ sagði Aron.

Guðjón Valur spilaði með Barcelona frá 2014 til 2016 og vann spænska meistaratitilinn (2015 og 2016), spænska bikarinn (2015 og 2016) og Meistaradeildina (2015) með félaginu.

Aron sagði jafnframt að það hafi ekkert þurfti mikið til að sannfæra hann um að fara til Barcelona.

Hann hafi talað við þjálfara liðsins, Xavi Pascual, og eftir að hann fann fyrir miklum áhuga hjá þjálfaranum og fékk að vita honum yrði ætlað stórt hlutverk hjá félaginu þá hafi þetta verið auðveld ákvörðun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×