Handbolti

Seinni bylgjan: Glórulaus dómur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það fóru mörg rauð spjöld á loft í síðustu umferð Olís deildar karla í handbolta, og eitt blátt fékk að líta dagsins ljós í Safamýrinni í leik Fram og Fjölnis.

Farið var yfir dóminn í Seinni bylgjunni í gærkvöld, og voru spekingarnir ekki á því að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá dómarum leiksins, þeim Antoni Gylfa Pálssyni og Jónasi Elíassyni.

„Þetta er glórulaus dómur,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson.

Sigurður Örn Þorsteinsson fékk rauða spjaldið og svo bláa spjaldið fyrir brot á Björgvini Pál Rúnarssyni. Hann ýtir þá í bakið á Björgvini sem er sloppinn einn á markið.

„Það þarf aðeins að lesa leikinn. Ókei, hann fer aðeins aftan í hann, en hann er að reyna að taka boltann,“ sagði Sigfús Sigurðsson.

„En hann hittir hann ekki,“ sagði þá þáttastjórnandinn Tómas Þór Þórðarson.

„Og?“ spurði Sigfús þá, greinilega ekki á þeim bókunum að kaupa þennan dóm.

Tómas gat þó sammælst Sigfúsi um það að blátt spjald væri aðeins of mikið, sérstaklega þar sem Teitur Örn Einarsson, leikmaður Selfoss, fékk ekki blátt fyrir að berja leikmann ÍBV í magann í Suðurlandsslagnum sem fram fór á sama tíma.

„Hvar er línan? Er ekki sama línan hjá öllum dómurum?“ spurði Sigfús.

„Mér finnst oft vera svolítill hroki í honum [Antoni Gylfa, dómara] í dómgæslunni. Honum finnst hann vera svo helvíti flottur að hann gerir það sem honum sýnist,“ bætti Gunnar Berg við.

Umræðuna í heildinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×