Handbolti

Þjálfaraskipti hjá PSG næsta sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Raúl González fær flugferð frá lærisveinum sínum í Vardar eftir sigur liðsins á PSG í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vor.
Raúl González fær flugferð frá lærisveinum sínum í Vardar eftir sigur liðsins á PSG í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vor. vísir/getty
Þjálfaraskipti verða hjá franska handboltastórveldinu Paris Saint-Germain í sumar.

Hinn þrautreyndi Noka Serdarusic lætur þá af störfum og við tekur Raúl González, þjálfari Evrópumeistara Vardar og makedónska landsliðsins.

Serdarusic hefur þjálfað PSG síðan 2015. Svíagrýlan sjálf, Staffan Olsson, hefur verið honum til aðstoðar. Undir þeirra stjórn hefur PSG tvívegis orðið franskur meistari og einu sinni bikarmeistari.

Þá komst PSG í úrslit Meistaradeildar Evrópu síðasta vor en tapaði fyrir lærisveinum González í Vardar sem urðu Evrópumeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

González hefur stýrt Vardar síðan 2014 og unnið allt sem hægt er að vinna með liðinu. Þá tók hann við makedónska landsliðinu af Lino Cervar fyrr á þessu ári og kom því inn á EM 2018 í Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×