Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Grótta 26-21 | Reynslan hafði betur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. Vísir/Anton
Haukar elta granna sína í FH á toppi Olís-deildarinnar, en Haukar unnu baráttusigur á botnliði Gróttu á Ásvöllum í dag, 26-21. Staðan var jöfn í hálfleik 10-10.

Grótta spilaði í 50 mínútur afar vel. Varnarleikurinn þéttur og Hreiðar Levý Guðmundsson varði og varði í markinu þar fyrir aftan, mörg úr dauðafærum.

Gestirnir af nesinu leiddu framan af fyrri hálfleiknum, en þó ekki miklum mun og heimamenn voru alltaf í seilingarfjarlægð. Halldór Ingi Jónasson jafnaði metin í 10-10 rétt fyrir hálfleik og þannig stóðu leikar þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningnum. Stirður sóknarleikur Hauka og Grótta þurfti einnig að hafa mikið fyrir mörkum sínum. Bjarni Ófeigur og Daði drógu Gróttu-vagninn sóknarlega, en Daníel og Atli Már Hauka-vagninn.

Þegar tíu mínútur voru eftir af var staðan jöfn, 19-19, en þá skildu leiðir. Haukar skoruðu sjö næstu mörk gegn einungis tvö frá Gróttu, en lokatölur urðu 26-21.

Haukar eru nú í öðru sæti deildarinnar með 12 stig, tveimur stigum á undan FH og einu stigi á undan Val. Valur og FH eiga þó bæði leik til góða, en þau spila á morgun; FH gegn ÍR og Valur gegn Stjörnunni.

Afhverju unnu Haukar?

Liðið hefur oft spilað betur, þá sérstaklega í fyrri hálfleik, en endaði uppi með stigin tvö og það eru þau sem skipta máli. Liðið saknaði Tjörva Þorgeirssonar í uppstilltum sóknarleik, sér í lagi í fyrri hálfleik, en það kom ekki að sök í dag að minnsta kosti. Sóknarleikurinn skánaði í síðari hálfleik.

Haukarnir voru að spila á fleiri mönnum og það skilaði sér á lokakaflanum þegar lykilmenn Gróttu reyndust orðnir bensínlausir, en þá voru menn eins og Atli Már Báruson að stíga upp hjá Haukum og skila inn mikilvægum mörkum.

Hverjir stóðu upp úr?

Markaskorið dreifðist ágætega hjá Haukunum, en Daníel Þór Ingason, Atli Már Báruson og Leonharð Þorgeir Harðarson skoruðu 17 mörk samtals, en Leonharð átti fínan leik í fjarveru Tjörva.

Varnarleikur Gróttu var afbragð í fyrri hálfleik, en þar fyrir aftan var Hreiðar Levý Guðmundsson í fanta formi og varði mörg dauðafæri. Bjarni Ófeigur, Júlús og Daði Laxdal báru sóknarleik gestanna á herðum sér og skoruðu þeir 16 af 21 marki gestanna. Hreiðar Levý Guðmundsson átti mjög góðan leik í markinu.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka var skelfilegur í fyrri hálfleik, en þeir skoruðu einungis tíu mörk. Sóknarleikur Gróttu undir lokin var einnig ekki góður, en það gæti hafa spilað inn í, eins og áður segir, að lykilmenn voru ekki með mikið á tankinum og mikið mæddi á sömu leikmönnunum.

Hvað gerist næst?

Grótta leitar enn af sínum fyrsta sigri, en næst fá þeir Selfyssinga í heimsókn út á nes. Selfoss tapaði einnig sínum leik í kvöld svo það verður hart barist á nesinu. Haukar fara í Víkina og mæta nýliðum Víkings, en þar eru tvö stig sem Haukar eiga að taka, ef allt er eðlilegt.

Björgvin: Leiðinlegt að horfa á hann vera verja eins og rotta

„Þetta var ekki fallegur leikur hjá okkur. Grótta er bara með hörkulið og það er ótrúlegt að þeir séu ekki komnir með stig,” sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, í samtali við Vísi eftir leikinn.

„Það eru miklir hæfileikar í þessu liði og þetta eru töffarar, en þeir eru að spila á fáum mönnum. Það vantaði smá kraft í þá í lokin og þeir missa dampinn.”

„Þeir eru gott lið sem við verðum að taka alvarlega. Við gerðum það og þótt að þetta hafi ekki verið fallegt þá var þetta mikilvægur sigur.”

„Það eru öll liðin í því að púsla saman. Það vantaði tvo hjá þeim og tvo hjá okkur. Það verður þannig út tímabilið að það vanti menn og við verðum bara að vinna úr því sama hvort Tjörvi sé með eða ekki. Karakterssigur og geggjað að skila þessu í hús.”

Varnarleikur Hauka var lengstum af góður í leiknum, en heimamenn héldu gestunum í einungis 21 marki; tíu í fyrri hálfleik og ellefu í þeim seinni.

„Hann er góður mestmegnis. Ég var slappur í of langan tíma og leiðinlegt að horfa á hann hinu megin vera að verja eins og rottu á meðan,” sagði Björgvin Páll í miklum gríntón þegar hann talaði um fyrrum landsliðsfélaga sinn og góðan félaga, Hreiðar Levý.

„Auðvitað er gaman að sjá að vörnin hélt út og það er vel að fá bara 21 mark á sig,” en nú er stefnan bara halda áfram að safna stigum í pokann og halda í við toppliðin:

„Við ætlum að vera í þessari baráttu. Þetta eru strembnir leikir. Þetta er erfitt og var ljótt eins og veðrið, en góður sigur,” sagði Björgvin að lokum.

Kári: Sóknarleikurinn borinn uppi af fáum

„Við vorum inni í þessum leik í 50 mínútur og rúmlega það, en erum svo bara orðnir bensínlausir á síðustu tíu mínútunum,” voru fyrstu viðbrögð Kára Garðarssonar, þjálfara Gróttu, í samtali við Vísi.

„Við vorum ekki með fullan mannskap í þessum leik. Við misstum Nökkva út úr þessu og Finnur spilar ekki, en Max meiðist svo snemma. Sóknarleikurinn er borinn upp af fáum og það sást á síðustu mínútunum.”

Bjarni Ófeigur og Daði Laxdal Gautason báru uppi sóknarleik Gróttu lengstum af og þeir voru orðnir bensínlitlir undir lokin:

„Kannski vorum við ekki að finna nægilegar lausnir á síðustu tíu mínútunum, ekki nógu mikið flot. Pétur Árni kom inn úr horninu og hjálpaði okkur töluvert, en það vantaði að klára leikinn sterkari en við gerðum.”

„Varnarleikurinn er góður bróðurpartinn af leiknum. Við erum að standa hann vel og halda niðri frábærum leikmönnum eins og Daníel og fleiri öflugum.”

„Ég er ánægður með það, en það færir okkur ekkert í stigasafnið,” sagði Kári, en Grótta leitir enn að fyrsta sigrinum:

„Hún heldur áfram og það kemur að því. Við þurfum að halda þolinmæðinni og vinnunni. Það er allt á milljón og það vantar herslumuninn til þess að klára dæmið,” sagði Kári að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira