Yfirvöld í Kína hafa ákveðið að slaka á takmörkunum á erlendu eignarhaldi á eignastýringarfyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum. Með rýmkun heimildanna munu erlend fyrirtæki geta átt meirihlutaeign í sjóðum og bönkum. Þá stendur einnig til að erlendir aðilar geti átt meirihluta í tryggingafélögum.
Um er að ræða kúvendingu í efnahagsstefnu Kína en stjórnvöld hafa hingað til takmarkað umsvif erlendra fyrirtækja. Ákvörðunin er skref í átt að frekari markaðsvæðingu kínverska fjármálamarkaðsins. Nú þurfa erlendir bankar sem eru með starfsemi í landinu að starfa í gegnum kínverska aðila til að geta átt viðskipti með verðbréf og stýrt eignum.
Xi Jinping, forseti Kína, sagði í ræðu sinni í dag á fundi Samvinnustofnunar Asíu- og Kyrrahafsríkja að ekki væri hægt að stöðva alþjóðavæðinguna og lýsti yfir stuðningi við marghliða samvinnu.
Þá mun þetta eflaust styrkja viðskiptasamband Bandaríkjanna og Kína. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, heimsótti Kína í gær og átti fund með Xi Jinping. Ræddu þeir til að mynda milliríkjaviðskipti og ástandið á Kóreuskaga. Tilkynningin frá stjórnvöldum landsins kemur því beint í kjölfar fundar leiðtoganna.
Trump hefur ítrekað bent á viðskiptasamband ríkjanna sem hann telur vera ósanngjarnt gagnvart Bandaríkjunum. Í kosningabaráttunni talaði hann um viðskiptahallann og sakaði Kína um að eyðileggja efnahag Bandaríkjanna. Jafnframt sagði hann stjórnvöld í landinu halda gjaldmiðli sínum niðri til að bæta samkeppnishæfni sína gagnvart Bandaríkjunum.

