Handbolti

Bjarki Már og Refirnir komnir þangað sem að FH vill komast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarki Már skoraði tvö mörk.
Bjarki Már skoraði tvö mörk. vísir/eyþór
Bjarki Már Elísson og félagar hans í Füchse Berlín áttu ekki í neinum vandræðum með að komast áfram í riðlakeppni EHF-bikarsins í handbolta í kvöld.

Berlínarrefirnir mættu Porto frá Portúgal í seinni leik liðanna í 3. umferðinni en Füchse vann fyrri leikinn ytra, 30-27. Þýska toppliðið vann svo öruggan átta marka sigur í kvöld, 33-25, og einvígið samanlagt, 63-52.

Bjarki Már skoraði tvö mörk í kvöld úr tveimur skotum en þýski landsliðsmaðurinn Steffan Fäth var markahæstur ásamt Svíanum Matthias Zachrisson með sex mörk.

Refirnir eru fyrsta liðið sem tryggir sér sæti í riðlakeppninni en þangað komast 16 lið af þeim 32 sem taka þátt í 3. umferðinni. Eftir hana taka við fjórir fjögurra liða riðlar og komast efstu tvö lið hvers áfram í átta liða úrslitin.

Eina viðureignin sem er ekki hafin í 3. umferðinni er viðureign FH og TATRAN Presov. Hún tafðist aðeins vegna langferðar FH-inga til Rússlands að vinna eina vítakeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×