Fótbolti

KSÍ vill fá meira en átta prósent miða í boði á HM leiki Íslands næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður örugglega fjör í íslensku stúkunni næsta sumar.
Það verður örugglega fjör í íslensku stúkunni næsta sumar. Vísir/Getty
Miðasala á leiki Íslands á HM í Rússlandi hefst aftur í dag en svo gæti farið að færri íslenskir fóboltaáhugamenn geti fengið miða en vilja. Knattspyrnusamband Íslands er að reyna að berjast fyrir því að íslenskir stuðningsmenn fái fleiri miða.

Íslenska knattspyrnusambandið er hinsvegar ekki eina fótboltasambandið sem er á eftir fleiri miðum á leiki síns liðs. Það er mikil ásókn í miða á HM í Rússlandi en miðasalan er opin í ákveðinn tíma.

Að þessu sinni er miðasalan opin frá því í dag og út janúamánuð. Nú er ekki um að ræða „fyrstur kemur, fyrstur fær” heldur er þetta í raun happdrætti. Ef miðaumsóknir verða fleiri en fjöldi miða verður dregið af handahófi.

Knattspyrnusamband Íslands á rétt á átta prósent miða í boði á leikina þrjá í riðlakeppninni sem eru á móti Argentínu (16. júní), Nígeríu (22. júní) og Króatíu (26. júní).

Leikirnir fara fram á Otkrytiye leikvanginum í Mosvku (tekur 45.360), Volgograd leikvanginum í  Volgograd (tekur 45.568) og Rostov leikvanginum í Rostov-on-Don (tekur 45.000).

Átta próent af miðum á leikina þýðir að þetta verður í kringum 3600 miðar sem íslenskir stuðningsmenn eru öryggir með að fá. Hvort að það sé nóg er síðan allt önnur saga.

Það er mikill áhugi á því að fara til Rússlands næsta sumar og komast á leiki með íslenska landsliðinu sem tekur nú þátt í heimsmeistarakeppninni í fyrsta sinn.

KSÍ segir frá því á heimasíðu að íslenska sambandið, ásamt öðrum þjóðum, hafi verið í sambandi við FIFA og beðið um að þetta hlutfall verði hækkað. „Þegar svör hafa fengist frá FIFA verður þeim upplýsingum komið á framfæri á miðlum KSÍ,“ segir í fréttinni á KSÍ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×